„Enginn græðir á þessu stríði“

Xi Jinping og Biden á samsettri mynd.
Xi Jinping og Biden á samsettri mynd. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jinping forseti Kína ræddust við í síma í dag um ástand heimsmála og var beðið eftir viðbrögðum Xi Jinping, sem hingað til hefur sýnt stöðu Rússa skilning. Símtalið stóð yfir í eina og hálfa klukkustund og lauk kl. 10:53 að staðartíma í Washington, eða 14:53 að íslenskum tíma.

Í ríkissjónvarpi Kína, CCTV, var haft eftir Xi Jinping að „samskipti þjóða gætu ekki farið á stig stríðsátaka,“ og að bæði Kína og Bandaríkin „þyrftu að axla ábyrgð á stöðu heimsmála.“ Einnig var haft eftir forseta K’ina að „friður og öryggi væru dýrmætustu þættir alþjóðasamfélagsins.“

Óljósar upplýsingar

Það er ekki ljóst hvort Xi Jinping hafi gagnrýnt Vladimír Pútín Rússlandsforseta beint í samtalinu, né hvort vilji hafi verið sýndur til að aðstoða Bandaríkin og Vesturlönd í að beita Rússa þrýstingi.

Vonast hafði verið til í Bandaríkjunum að það væri a.m.k. hægt að sannfæra Xi Jinping forseta um að veita Rússum ekki fjármagns- eða hernaðaraðstoð, enda almennt talið að sú staða myndi færa átökin í átt að alheimsófriði. Ef það yrði niðurstaðan gætu Kínverjar hjálpað Pútín að standast efnahagsrefsiaðgerðirnar og eins þyrftu Vesturlönd að taka erfiða ákvörðun um hvernig væri hægt að bregðast við og refsa næststærsta efnahagsvæði heimsins, með tilheyrandi afleiðingum á alþjóðamörkuðum.

Framtíð Kína með Vesturlöndum

Biden sagði að Kína þyrfti að skilja að „framtíð þeirra væri í samstarfi við Bandaríkin, við Evrópu og aðrar þjóðir í heiminum. Framtíð þeirra væri ekki að styðja Vladimír Pútín,“ var haft eftir Wendy Sherman utanríkisráðherra á CNN í dag.

Engar afleiðingar staðfestar í Hvíta húsinu

 Engin svör bárust frá Hvíta húsinu um hvort Biden hefði hótað Kínverjum einhverjum efnahagsrefsiaðgerðum í símtalinu, en látið liggja að því að „einhvers konar viðbrögð“ hefðu verið rædd. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði fyrir samtalið að Kínverjar yrðu gerðir ábyrgir ef þeir styddu Rússa og hann hvatti Kínverja til að nýta sér góð samskipti við Pútín til að hafa áhrif á hann til að enda stríðið.

Kínverjar taldir vera að meta stöðuna

Talið er að Kínverjar séu að vega og meta stöðu sína. Bæði er hægt að líta til ástandsins í Taívan, þar sem þeir sjá ákveðin samhljóm með stöðu Rússa, en á móti kemur að landið er mjög tengt Vesturlöndum í öllum viðskiptum. Síðan standa vonir þeirra til þess að geta leitt heiminn, fyrr en síðar.

Ólíkir hagsmunir

„Hagsmunir Kína og Rússlands eru ekki þeir sömu. Pútín er eins og brennuvargur fjölþjóðasamfélagsins meðan Xi Jinping sér sig sem arkitekt hins nýja og betrumbætta fjölþjóðasamfélags,“ var haft eftir Ryan Hass, sem var öryggisráðgjafi Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. „Xi Jinping forseti Kína er að reyna að halda jafnvægi milli stríðandi hagsmuna. Hann metur gott samstarf við Rússa en á sama tíma vill hann ekki gera lítið úr samskiptum Kína við Vesturlönd.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert