Fujimori verður látinn laus

Alberto Fujimori.
Alberto Fujimori. AFP

Stjórnskipunardómstóll Perú kvað í dag upp dóm þess efnis að fyrrum forseti landsins, Alberto Fujimori, skyldi náðaður að nýju og sleppt innan nokkurra daga.

Fujimori, sem var forseti landsins á árunum 1990 til 2000, situr nú inni fyrir glæpi gegn mannkyninu. Eftir að forsetatíð hans lauk hlaut hann 25 ára dóm fyrir að hafa í tvígang fyrirskipað fjöldamorð dauðasveita á árunum 1991 og 1992.

25 manns létust í fjöldamorðunum, þar af eitt barn.

Árið 2017 var hann náðaður af þáverandi forseta Perú, Pedro Pablo Kuczynski, rétt áður en hann hrökklaðist frá völdum. Þeirri náðun var síðan snúið við ári síðar, 2018.

Jafntefli en samt sleppt

Nú hefur stjórnskipunardómstóllinn aftur á móti endurreist upphaflegu náðunina frá 2017 og er dómurinn óáfrýjanlegur. Mun hann því vera látinn laus innan nokkurra daga, að sögn heimildarmanns innan perúska dómskerfisins.

Að hans sögn þá féllu atkvæði jafnt í dómstólnum – þrír dómarar voru með og þrír á móti. Reglur kveða aftur á móti um að þá gildi atkvæði forseta réttarins tvöfalt.

Alberto Fujimori flúði frá Perú eftir að hann lét af embætti upp úr aldamótum, upphaflega til heimalands forfeðra sinna, Japans. Hann var síðan framseldur aftur til Perú árið 2007 frá Chile, þar sem hans beið fangelsisvist eftir að hafa verið sakfelldur í fjarveru sinni.

Heilsu Fujimoris hefur farið hrakandi undanfarið. Nú síðast á mánudag sneri hann í fangelsið á nýjan leik eftir ellefu daga meðferð vegna óreglulegs hjartsláttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert