Kína muni þurfa að „greiða“

Biden og Xi á síðasta fundi sínum sem var haldinn …
Biden og Xi á síðasta fundi sínum sem var haldinn í nóvember síðastliðnum. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti mun vara Xi Jinping, forseta Kína, við því í dag að Kína muni þurfa að „greiða“ fyrir það ef kínversk stjórnvöld reyni að bjarga Rússum frá þeim erfiðu aðstæðum sem efnahagslegar refsiaðgerðir Vesturlanda hafa skapað þeim.

Leiðtogarnir munu ræða saman í síma klukkan eitt að íslenskum tíma í dag. Verða þetta fyrstu viðræður þeirra síðan í nóvember. Tilefni fundarins er innrás Rússa í Úkraínu. 

Jen Psaki, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, segir að í símtalinu muni Biden fá tækifæri til þess að komast að því hvar Xi stendur í deilunni. 

Ekki vitað um refsiaðgerðir gegn Kínverjum

Mun símtalið ekki einungis beinast að refsiaðgerðum heldur mun Biden væntanlega ræða við Xi um leiðir til þess að neyða Rússa til þess að leggja niður vopn. 

Kínversk stjórnvöld hafa neitað því að fordæma innrás Rússa og óttast bandarísk stjórnvöld að Kínverjum gæti hugnast að styðja Rússa fjárhagslega og mögulega með aðstoð við stríðsrekstur þeirra. Það gæti haft verulega alvarlegar afleiðingar í för með sér. 

Hvíta húsið hefur ekki gefið það út hvort Biden muni hóta Kínverjum refsiaðgerðum en einhverskonar andsvar er á borðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert