Gríðarmikill eldur kom upp í einum stærsta markaði í Evrópu og jafnframt í heiminum eftir sprengjuárásir Rússa á borgina Karkív í austurhluta Úkraínu í gær.
Markaðurinn, sem heitir Barabashova og er að stórum hluta götumarkaður, nær yfir 300 þúsund fermetra svæði. Var þetta fjölmennasti vinnustaður borgarinnar, en nokkrir tugir þúsunda störfuðu í nokkur þúsund verslunum á svæðinu. Markaðurinn hafði verið lokaður frá því að innrás Rússa hófs.
Bréfritari sem hefur sent mbl.is daglegar dagbókafærslur síðustu viku um ástandið í Karkív lýsti því svo að mikinn svartan reyk hefði lagt til himins og að samkvæmt fréttum sem þau heyrðu tækist illa að takast á við eldinn vegna frekari stórskotaliðsárása á borgina. Þá sýna myndskeið sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum og fréttaveitum mikið umfang brunans og nær hann yfir fjölmargar húsaraðir og hefur teygt sig í nærliggjandi hús.
Lesia Vasílenko, úkraínsk þingkona bendir á að Rússar hafi nú eyðilagt bæði Barbashov og verslunarmiðstöðina Lavina í Kænugarði. Segir hún eins og Rússar séu að reyna að eyðileggja verslanir til að ná sér niður eftir að erlendar verslunarkeðjur stöðvuðu starfsemi sína í Rússlandi eftir að innrásin hófst.
Karkív hefur verið ein þeirra borga í Úkraínu sem hafa orðið hvað verst úti vegna árásar Rússa, en þeir hafa setið um borgina næstum frá upphafi innrásarinnar. Sagði borgarstjóri borgarinnar fyrr í vikunni að yfir 600 hús væru eyðilögð eftir árásirnar. Fyrir innrásina voru íbúar borgarinnar yfir 1,5 milljónir, en fyrr í mánuðinum sagði borgarstjórinn að aðeins væru eftir tæplega hálf milljón. Aðrir hefðu flúið.