Mikill eldur kom upp í risastórum markaði í Karkív í gær og lýsir Karine því hvernig þykkur reykurinn stígur upp á meðan slökkviliðsmenn virðast lítið ráða við eldinn þar sem rússneska innrásarliðið heldur sprengjuárásum sínum áfram. Markaðurinn, sem heitir Barabashovo, er einn stærsti markaður heims sem og Evrópu og fyrir stríðið störfuðu þar tugir þúsunda.
Við höldum áfram að heyra frá þeim Sergei sem býr í Lviv í vesturhluta landsins og Karine í borginni Karkív í austuhluta landsins, en þau deila með mbl.is reglulegum dagbókarfærslum sínum um ástandið, upplifun sína og hvað er efst í huga almennra borgara eftir að stríð hefur brotist út í eigin landi.
Karine í Karkív
Nóttin var róleg, en um morguninn hófust árásirnar á ný. Gríðarmikill eldur varð seinni partinn í einum af stærstu mörkuðum Evrópu, sem er hér í Karkív, og það hefur ekki tekist að slökkva eldinn vegna stórskotaliðsárása. Við sjáum þykkan reykinn stíga upp. Einn slökkviliðsmaður er þegar látinn og annar er slasaður.
Í gær skutu Rússar á bæinn Merefa sem er í sama héraði og Karkív. Skotið var á skóla og menningarhús og var 21 drepinn og 25 særðust. Ég á vinkonu sem er listgagnrýnandi, en móðir hennar býr í Merefa. Sem betur fer er hún heil á húfi.
Í gær frömdu Rússar hræðilegan glæp með því að láta sprengjum rigna á leikhús í Maríupol þar sem fjöldi fólks hafðist við, aðallega konur með börn. Það var sprengjubirgi undir leikhúsinu og nálægt því stóð stórum stöfum „börn.“ Þetta er nú það sem er orðið að skotmörkum fyrir rússneska herflugmenn – þeir vissu vel hvað þeir voru að sprengja.
Vinur minn, sem er leikari í héraðsleikhúsinu hér í Karkív, tók þátt í leikverki sem flutt var í þessu leikhúsi í Maríupol 13. september í fyrra. Leikhópurinn tók þar þátt í leiklistarhátíðinni „Leiklistarhliðið 2021.“ Fluttu þau verkið „Brauðvopnahléið“ sem hafði verið á fjölum héraðsleikhússins hér, en það er byggt á verki úkraínska höfundarins Serhí Sadan. Hann er meðal annars tilnefndur til bókmenntaverðlauna Nóbels í ár, en hann er nú hér í Karkví og aðstoðar sem sjálfboðaliði. Verkið er um stríðið í austurhluta Úkraínu og lýsir atburðunum sumarið 2014.
Leikstjórinn er svo annar vinur minn, Oleksandr Kovshun. Serhí Sadan er meðal annars tilnefndur til bókmenntaverðlauna Nóbels í ár. Verkið naut mikilla vinsælda og var vel tekið af dómnefndinni á hátíðinni.
Ég hef aldrei komið til Maríupol, en sársauki þeirra er sársauki okkar allra. Allir íbúar Úkraínu finna til með íbúum borgarinnar. Viðskiptajöfurinn og þingmaðurinn Serhí Taruta lýkti Maríupol við Hiroshima og það er viðeigandi samanburður. Rússland er að eyða okkur, en við munum komast af og hafa betur gegn innrásarliðinu.
Sergei í Lviv
Tuttugasti og annar dagur stríðsins. Ég er enn á spítala, en líður betur í dag. Ég þarf samt áfram að vera hér fram á laugardag hið minnsta. Pabbi kom með mat handa mér og bækur handa mér og svo reyni ég að sofa og borða eins og ég get.
Ég er með smá áhyggjur af kettinum okkar sem varð eftir heima, en hún mun örugglega spjara sig. Pabbi fer líka á hverjum degi og heimsækir hana. Reyndi að ganga aðeins á göngunum hér á spítalanum, en varð fljótt mjög þreyttur.
Fréttirnar af stríðinu eru svipaðar og síðustu daga. Þessir rússnesku hryðjuverkamenn halda áfram að sprengja borgaraleg skotmörk. Auðvitað beita þeir svo áróðri og segjast ekki standa á bak við neitt af þessu. Hversu mikill uppvakningur þarftu að vera til að trúa þessum lygum? Það virðast reyndar margir trúa þessu, næstum flestir íbúar Rússlands. Ég vil ekki lengur eiga í neinum samskiptum við þá (þó ég eigi rætur að rekja til Síberíu) og við munum aldrei fyrirgefa þetta.
Staðan: Við bókalesturinn rifjaðist upp fyrir mér hversu mikið ég sakna Karpatafjallanna. Það er orðið allt of langt síðan ég kom þangað.
Jaroslav í Ódessu:
Við náðum að gera mikið í dag. Byrjuðum að fara í stórmarkaðinn til að kaupa mat til að koma til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Það var hins vegar komið hámark á hvað einn einstaklingur getur keypt. Settum matarinnkaupin á bið og keyrðum 200 kg af fötum í kjallara sem verður líklega notaður af flóttamannastofnun fljótlega.
Síðan héldum við aftur í stórmarkaðinn og í þetta skipti með pappíra sem sýndu fram á sjálfboðastarfið sem við vinnum að og yfirmaðurinn í versluninni felldi því niður hámarkið.
Borðuðum svo saman og eftir stutta hvíld fórum við að undirbúa morgundaginn, en sú vinna var langt fram á kvöld.