Þrjátíu þúsund náð að flýja Maríupol

Flóttamenn í einkabílum frá Mariupol í jaðri borgarinnar Saporisjía þar …
Flóttamenn í einkabílum frá Mariupol í jaðri borgarinnar Saporisjía þar sem skráning flóttamanna fer núna fram. AFP/Emre Caylak

Þrjátíu þúsund almennir borgarar hafa náð að flýja borgina Maríupol eftir að loftárás var gerð á leikhús borgarinnar, þar sem mikill fjöldi hafði leitað vars. Leikhúsið gjöreyðilagðist í árásinni, en engar tölur hafa borist um mannfall.

80% íbúabyggðar í rúst

Fréttirnar komu frá borgaryfirvöldum í Maríupol í gegnum samskiptaforritið Telegram og var sagt að þeir borgarar sem hefðu flúið hefðu farið á eigin farartækjum.

Núna eru um 80% íbúabyggðar í borginni rústir einar. Í tilkynningunni á Telegram kom einnig fram að verið væri að kanna stöðuna eftir árásina á leikhúsið og hvort mannfall hefði orðið.

Mynd af árásinni á leikhúsið í Maríupol sem birtist á …
Mynd af árásinni á leikhúsið í Maríupol sem birtist á Telegram hjá Pavló Kírilenkó, héraðsstjóra Donetsk-héraðs. AFP

Neðanjarðarbyrgið hafi staðist árásina

Ljúdmíla Denisóva, sem er mannréttindafulltrúi ríkisstjórnarinnar, vonar að enginn hafi látist í árásinni.

„Ég vil þakka öllum fyrir bænir ykkar og neðanjarðarbyrgið í leikhúsið stóðst árásina,“ sagði hún í úkraínska sjónvarpinu. „Við höfum ekki allar upplýsingar enn, en teljum að enginn hafi farist.“

Borgaryfirvöld í Maríupol sögðu að sundlaug þar sem konur, börn og eldri borgarar hefðu leitað vars hefði einnig verið skotmark loftárása Rússa í dag.

„Að meðaltali eru 50-100 loftárásir á borgina daglega,“ segir í tilkynningunni.

350 þúsund borgarar í felum

Ástandið er hrikalegt í borginni og er talið að 350 þúsund almennir borgarar séu í felum í neðanjarðarbyrgjum og kjöllurum.

Her Úkraínumanna hefur verið hrósað af borgaryfirvöldum Mariupol í hetjulegri baráttu þeirra við að reyna að verja borgina.

Eina leiðin út úr borginni er með einkabílum og borgaryfirvöld segja 6.500 bíla hafa yfirgefið borgina undanfarna tvo daga. Vegna rafmagnsleysis og skorts á möguleikum til samskipta hefur fólk átt erfitt með að skipuleggja flótta úr borginni.

Yfirvöld í Úkraínu segja að meira en 2.000 borgarar hafi látist í Mariupol til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert