Björgunarmenn leita í rústunum

Mynd frá Kænugarði.
Mynd frá Kænugarði. AFP

Björgunarmenn í Úkraínu leituðu í gær að hundruð íbúa sem talið er að séu fastir undir rústum leikhússins sem varð fyrir sprengjuárás Rússa í Maríupól á miðvikudag.

Að sögn Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta var 130 manns bjargað úr rústunum. Íbúar borgarinnar leituðu sér skjóls í leikhúsinu og festust þegar sprengjur Rússa hæfðu húsið.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær við Xi Jinping leiðtoga Kína að stuðningur Kína við Rússland myndi hafa afleiðingar í för með sér.

Loftmynd frá Maríupól.
Loftmynd frá Maríupól. AFP

Innrás Rússa stopp

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa áhyggjur af því að Kína veiti Rússum bæði fjárhagsaðstoð og hernaðaraðstoð, sem gæti umbreytt stöðunni í heimsstyrjöld.

Í tveggja klukkustunda símtali Bidens og Xi Jinping, sagði sá síðarnefndi að stríð væri ekki hagkvæmt fyrir neinn, en sýndi engan áhuga á því að fordæma árás Rússa eins og Vesturríki hafa gert.

Innrás Rússa virðist vera stopp. Samkvæmt heimildum talsmanns varnamálaráðuneytis Bandaríkjanna eru hermenn Rússa um 30 kílómetra austur af Kænugarði og hafa mætt mikilli mótstöðu úkraínska hersins.

Talsmaðurinn sagði einnig að árás Rússa á Kharkiv, borg sem þeir hafa umkringt, hafi ekki borið árangur.

Uppskar mikinn fögnuð

Þrátt fyrir áföll rússneska hersins hélt Vladimír Pútín Rússlandsforseti fjöldasamkomu á stórum fótboltavelli í Moskvu í gær til þess að fagna því að átta ár er liðin frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga.

Pútín hélt fjöldasamkomu í dag.
Pútín hélt fjöldasamkomu í dag. AFP

Pútín sagði að herinn væri í Úkraínu til þess að bjarga fólki frá eymd og þjóðarmorði og uppskar mikinn fögnuð, þar sem áhorfendur hrópuðu „Rússland, Rússland“ og mátti sjá marga bera stafinn Z sem táknar stuðning við stríðið í Úkraínu. Pútín hefur ekki tekið neina áhættu hvað varðar ímynd sína og hefur bannað alla sjálfstæða miðla í landinu.

Selenskí ávarpaði rússneskar mæður í myndbandsskilaboðum, þar sem hann sagði að úkraínska þjóðin hafi ekki valið þetta stríð og vilji aðeins frið. Hann bætti því við að hann óski þess að móðurástin á börnunum yrði hræðslunni við yfirvöld yfirsterkari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert