Tugir úkraínskra hermanna féllu þegar að rússneskar hersveitir skutu á hermannaskála í borginni Míkolaív í suðurhluta Úkraínu í gærmorgun. Þetta herma heimildir AFP fréttastofunnar.
Teymi björgunarmanna er nú á leiðinni en að minnsta kosti 200 hermenn voru sofandi í skálanum þegar að rússneskar hersveitir létu til skarar skríða snemma föstudagsmorgun.
Búið er að sækja lík 50 hermanna úr sprengjurústunum en ekki er vitað hversu margir eru eftir inni, segir Maxím úkraínskur hermaður í samtali við AFP.
Annar hermaður sem fréttastofa ræddi við taldi að tala látinna gæti verið hátt í hundrað. Yfirvöld hafa ekki enn gefið út opinberar tölur um mannfall.
Skálinn, sem var staðsettur í norðurhluta borgarinnar, gjöreyðilagðist í árásinni en nokkur flugskeyti hæfðu mannvirkið. Talið er að skotið hafi verið á borgina frá Kerson, svæði sem er nú undir stjórn Rússa.
„Í gær gerðu rússneskar hersveitir huglausa loftárás á sofandi hermenn okkar,“ sagði Vitalí Kim, yfirmaður svæðisstjórnar, í myndbandsávarpi fyrr í dag.
Hann sagði að ekki væri hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, fyrir utan að björgunaraðgerð stæði nú yfir.