Skólaprófum milljóna nemenda í Srí Lanka hefur verið aflýst vegna skorts á prentpappír í landinu. Srí Lanka er nú í sinni alvarlegustu efnahagskreppu síðan árið 1948 og er pappírsskorturinn ein afleiðing hennar.
Frá þessu greindu yfirvöld í Srí Lanka í dag.
Menntamálayfirvöld í Srí Lanka sögðu að öllum misserisprófum, sem áttu að hefjast á mánudaginn næstkomandi, verði frestað um ókominn tíma vegna pappírsskorts.
„Ekki verður hægt að halda prófin þar sem prentsmiðjunum hefur ekki tekist að tryggja þann gjaldeyri sem þarf til þess að flytja inn nauðsynlegan pappír og blek,“ sagði talsmaður menntamáladeildar Vesturhéraðs Srí Lanka í samtali við fréttastofu AFP.
Samkvæmt opinberum heimildum væri aðeins hægt að halda próf fyrir tvo þriðju nemenda landsins, sem eru samtals 4,5 milljón talsins.
Misserispróf eru hluti af símatsferli sem notað er til að ákveða hvort nemendur fari upp um bekk í lok árs.
Lamandi efnahagskreppan sem Srí Lanka er nú í, stafar af skorti á erlendum gjaldeyri til að fjármagna nauðsynlegan innflutning til landsins, sem hefur svo leitt til skorts á matvöru, eldsneyti og lyfjum í landinu.
Hin fjársvelta 22 milljóna íbúa þjóð tilkynnti í vikunni að hún muni óska eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við að leysa síversnandi skuldastöðu sína og styrkja gjaldeyrisforða landsins.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn staðfesti í gær að hann væri að íhuga ósk Gotabaya Rajapaksa, forseta Srí Lanka, um aðstoð.
Greiða þarf um 6,9 milljarða bandaríkjadala skuld Colombo, höfuðborg Srí Lanka, á þessu ári, en gjaldeyrisforði hennar nam um 2,3 milljörðum bandaríkjadala í lok febrúar síðastliðnum.
Langar biðraðir hafa myndast eftir matvöru og eldsneyti víðs vegar um landið og hafa stjórnvöld tekið upp á því að skerða rafmagn til íbúa og skammta þeim mjólkurdufti, sykri, linsubaunum og hrísgrjónum.
Fyrr á þessu ári óskuðu stjórnvöld í Srí Lanka eftir því að Kína, einn helsti lánadrottnari þeirra, myndi veita þeim greiðslufrest á skuldum þeirra. Stjórnvöld í Pekíng hafa þó ekki enn brugðist við þeirri bón.