Árásin verði skráð sem stríðsglæpur í sögubókum

Volodimír Selenskí segir árás Rússa á Úkraínu verða stráða í …
Volodimír Selenskí segir árás Rússa á Úkraínu verða stráða í sögubækurnar sem stríðsglæp. AFP/Fabrice Coffrini

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu segir að umsátur rússneskra hersveita um Maríupol verði skráð í sögubækurnar sem stríðsglæpur. Hann telur að árásum þeirra á friðsælu hafnarborgina verði seint gleymt.

Rússar segja að hersveitum þeirra hafi tekist að brjóta sér leið í gegnum úkraínsku varnirnar og séu nú komnar inn í hafnarborgina Maríupol sem þeir hafa setið um frá því að stríðið byrjaði. 

Borgarstjóri Maríupol hefur staðfest við fjölmiðla að úkraínskar og rússneskar hersveitir séu nú að berjast inni í borginni sjálfri.

Sprengdu spítala

Í borginni Tjernihív, sem er umkringd í norðurhluta landsins, segir borgarstjórinn að tugir óbreyttra borgara hafi verið drepnir í skotárásum og að sjúkrahús hafi einnig verið sprengt.

„Borgin þjáist af hræðilegum stórslysum í mannúðarmálum,“ sagði hann.

Kína geti orðið mikilvægt fyrir öryggi

Úkraínumenn skora nú á Kína að ganga til liðs við Vesturlöndin og fordæma „villimannslegar“ árásir Rússa. Bandaríkjamenn hafa þegar varað Peking við afleiðingum þess að sýna stuðning við rússnesku innrásina.

„Kína getur orðið mikilvægur hlekkur í hnattræna öryggiskerfinu ef það tekur rétta ákvörðun um að syðja bandalag siðmenntaðra ríkja og fordæma rússneska villimennsku,“ skrifaði Mikaílo Podolíak, aðstoðarmaður Selenskí, á Twitter.

Önnur árás á Míkolaív

Þá gerðu Rússar aðra loftárás á Míkolaív í gær, einungis degi eftir að þeir gerðu mannskæða árás á herstöð í sömu borg sem varð tugum hermanna að bana. Um 200 hermenn voru sofandi í herstöðinni þegar hún var sprengd en ekki er vitað hversu margir féllu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert