Frakkar frysta eignir rússneskra auðjöfra

Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands.
Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands. AFP

Frönsk yfirvöld hafa fryst eignir upp á 850 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 121 milljarðs íslenskra króna, sem eru í eigu rússneskra auðjöfra í landinu.

Frá þessu greindi Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, í dag.

Geta hvorki selt né aflað tekna

„Við höfum fryst eignir upp á 150 milljón evrur,“ sagði Le Maire í samtali við sjónvarpsstöð í Frakklandi.

Auk þess höfum við „fryst 539 milljón evrur í 390 fasteignum á frönsku yfirráðasvæði og kyrrsett tvær snekkjur sem eru virði 150 milljón evra,“ bætti hann við.

„Samtals eru þetta eignir upp á 850 milljón evrur sem við höfum fryst á franskri grundu.“

Aðgerðir Frakka þýða að rússnesku auðjöfrarnir geta hvorki selt né aflað tekna af eignum sínum í Frakklandi.

Eignirnar hafi þó ekki verið frystar til þess að franska ríkið gæti eignast þær og selt síðan áfram, að sögn Le Maire. 

„Refsiaðgerðirnar bitna harkalega á Rússlandi, rússneska ríkinu og Vladimír Pútín,“ sagði Le Maire.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka