Hvetur aðra Rússa til að mótmæla stríðinu

Marína Ov­sj­anní­kova, fyrrverandi ritstjóri ríkisreknu sjónvarpsstöðvarinnar Channel í Rússlandi.
Marína Ov­sj­anní­kova, fyrrverandi ritstjóri ríkisreknu sjónvarpsstöðvarinnar Channel í Rússlandi. AFP

Marína Ov­sj­anní­kova, sem mótmælti innrás Rússlandsí Úkraínu í sjónvarpsfréttum rússneska ríkissjónvarpsins, hvetur aðra Rússa til að mótmæla hinu „hræðilega stríði“.

Frá þessu greinir fréttaveita AFP.

Handtekin og sektuð um jafnvirði 36 þ.kr.

Ov­sj­anní­kova starfaði sem ritstjóri ríkisreknu sjónvarpsstöðvarinnar Stöð 1 í Rússlandi, en hún ruddist inn í tökuver kvöldfréttatíma stöðvarinnar á mánudag, með spjald sem á stóð: „Ekkert stríð“.

Í kjölfarið var hún handtekin, sektuð um 30.000 rúblur, jafnvirði tæplega 36 þúsund íslenskra króna, og síðan látin laus á meðan hún bíður eftir dómi í málinu.

Frakkar buðu Ov­sj­anní­kovu hæli sem hún hafnaði.

Í viðtali við bandaríska fjölmiðla sl. sunnudag sagði Ov­sj­anní­kova ákvörðun sína um að mótmæla hafa verið „hvatvísa“ en að djúpstæð óánægja hennar með rússnesku ríkisstjórnina hafi verið að byggjast upp í mörg ár og að fjöldi samstarfsmanna hennar væru sama sinnis.

„Áróðurinn sem fluttur var á ríkisreknu sjónvarpsstöðvunum var orðinn gjörsamlega á skjön við raunveruleikann og við urðum að bregðast við þeim þrýstingi sem rússnesk stjórnvöld voru farin að beita,“ sagði hún í samtali við fréttastofuna ABC, í sjónvarpsþættinum „This Week“.

„Þegar ég ræddi við vini mína og samstarfsfélaga var enginn sem trúði því að þetta myndi gerast – að þetta stríð myndi raunverulega eiga sér stað,“ bætti hún við.

Ovsyannikova mótmælti stríðinu í Úkraínu í kvöldfréttatíma Channel One.
Ovsyannikova mótmælti stríðinu í Úkraínu í kvöldfréttatíma Channel One. AFP

 Mótmælin hafi eyðilagt líf fjölskyldu hennar

„Um leið og stríðið byrjaði hætti ég að geta sofið og nærst. Ég mætti í vinnuna og eftir að hafa fjallað um þetta ástand í viku var andrúmsloftið á Stöð 1 orðið svo þrúgandi að ég ákvað að hætta.“

Ov­sj­anní­kova sagðist hafa íhugað að taka þátt í mótmælum á götum borgarinnar en sá svo að mótmælendur hafi verið handteknir og dæmdir í fangelsi.

„Ég ákvað þá að gera eitthvað annað, eitthvað áhrifameira, svo ég gæti sýnt restinni af heiminum að Rússar væru á móti stríðinu og leiðrétta þann áróður sem fluttur er fyrir rússnesku þjóðina í gegnum ríkisrekna miðla.“

Vonaðist hún til að geta „hvatt aðra Rússa til að mótmæla stríðinu“.

Á spjaldinu sem hún hélt uppi fyrir aftan fréttamann Stöðvar 1 stóð: „Endið stríðið. Ekki trúa áróðrinum. Þeir eru að ljúga að ykkur hérna“.

Ov­sj­anní­kova, sem hefur sagt upp starfi sínu hjá sjónvarpsstöðinni, sagði í samtali við frönsku fréttastofuna France 24 á fimmtudag að mótmælin hefðu „eyðilagt“ líf fjölskyldu hennar, og að ungur sonur sé sérstaklega áhyggjufullur.

„En við þurfum að binda endi á þetta stríð,“ sagði hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert