Kasta heimagerðum sprengjum í skriðdreka

Hin 23gja ára Luba. Báðir foreldrar hennar eru rússneskir.
Hin 23gja ára Luba. Báðir foreldrar hennar eru rússneskir. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

„Sjálfboðaliðarnir eru með stöðvar hér og þar um borgina þar sem þeir eru með nokkur hundruð kokteila á hornum til að kasta ef Rússarnir koma. Svo dúndra þeir í skriðdrekana um leið og þeir koma inn fyrir,“ segir Óskar Hallgrímsson ljósmyndari sem er búsettur í Kænugarði.

Þegar blaðamaður náði tali af honum var hann nýkominn úr heimsókn í svokallaða mólótov-verksmiðju þar sem hópur ungra Úkraínumanna hefur tekið höndum saman og byrjað að framleiða bensínsprengjur, eða mólótovkokteila, sem eru afhentar sjálfboðaliðunum í þjóðvarðliðinu sem sjá um að verja borgina fyrir rússneskum hermönnum samhliða úkraínska hernum.

Kokteilunum er safnað saman í gula kassa. Þeim er síðar …
Kokteilunum er safnað saman í gula kassa. Þeim er síðar dreift til sjálfboðaliða. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Segir hann kokteilana mjög öfluga gagnvart skriðdrekunum.

„Annars vegar vegna þess að þeir slettast út um allt. Kokteillinn fer inn fyrir götin sem Rússarnir nota til að fara út, þá geta þeir kveikt elda inni í bílum. Og hins vegar ef þú nærð að hitta þar sem loftinntakið á vélinni er þá drepur þú á skriðdrekanum. Þannig að þetta eru mjög öflug tæki og þau nota þetta mjög mikið núna. Þetta hefur virkað vel.“

Lýsandi fyrir baráttuandann

Verksmiðjan sem Óskar heimsótti ásamt eiginkonu sinni Mariiku er gamalt vöruhús frá sovéska tímabilinu. Því hafði verið breytt í næturklúbb en lítið hefur verið um skemmtanir og næturlíf í Kænugarði, eins og gefur að skilja.

Að sögn Óskars hefur hópur fólks, sem hann lýsir sem mjög áhugaverðu „rave-liði“, tekið yfir vöruhúsið og komið sér vel fyrir með bensínsprengjuframleiðsluna. Búa þau flest í byggingunni.

„Þau eru vanalega að klúbbast á nóttinni að dansa við teknó. En þau ákváðu að breyta til og búa til mólótovkokteila.“

Frauðplasti er blandað saman við bensínið.
Frauðplasti er blandað saman við bensínið. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

„Þau hella þessu frauðplasti í sambland við bensín. Þegar mólótovkokteillinn springur þá klístrast þetta út um allt.“

Fjöldinn allur af slíkum framleiðslum eru starfandi í Kænugarði og víðar í Úkraínu. Segir Óskar þetta uppátæki afar lýsandi fyrir baráttuandann í heimamönnum sem ætla sér svo sannarlega að berjast til síðasta blóðdropa. Þá hafa Úkraínumenn verið duglegir að safna glerflöskum og færa hópunum sem sjá um að gera sprengjurnar.

„Þetta er svo ótrúlega mikið Úkraína, þau eru bara svo svöl,“ segir Óskar við blaðamann fullur aðdáunar.

Berst gegn sínu eigin landi

Þegar Óskar og Mariiku bar að garði voru flestir úr hópnum sem standa að verksmiðjunni ekki á staðnum, þar sem þau voru stödd á skyndihjálparnámskeiði vegna stríðsins.

Hin 23 ára Lúba var þó ein af þeim sem tók á móti þeim. Hún er fædd í Úkraínu en báðir foreldrar hennar eru rússneskir. Barðist faðir hennar meira að segja í Afganistan fyrir hönd KGB-leyniþjónustunnar.

Að sögn Óskars hefur hún verið í samskiptum við foreldra sína í gegnum síma. Þar hefur hún reynt að útskýra fyrir þeim sína afstöðu og vekja athygli á upplýsingum sem birtast ekki í rússneskum fjölmiðlum.

Hún lætur skoðanir fjölskyldunnar þó ekki hafa áhrif á sig og heldur baráttunni ótrauð áfram.

Meira líf að færast í borgina

Að sögn Óskars er staðan í Kænugarði orðin nokkuð góð og hefur meira líf verið að færast á göturnar. Þá segir hann heimamönnum hafa tekist að „henda rússneska hernum lengst frá Kænugarði“.

„Rétt áður en þú hringdir þá var hérna svaka sprenging í loftinu, þá er verið að senda flugskeyti eða dróna yfir borgina. Það er það eina sem nær hingað inn. Þeir eru komnir úr skotfæri, það eru búnar að vera svakalegar gagnárásir frá Úkraínumönnum á rússneskar hersveitir síðastliðinn sólarhring.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert