Önnur árás á skjólstað flóttamanna í Maríupol

Rússar hafa setið um hafnarborgina síðustu tvær vikur.
Rússar hafa setið um hafnarborgina síðustu tvær vikur. AFP/Maxar Technologies

Borgaryfirvöld í Maríupol segja rússneskar hersveitir hafa enn á ný sprengt skjólstað í borginni þar sem hundruð íbúa voru.

Þetta kemur fram á vef BBC en þar er tekið fram að ekki hafi tekist að staðfesta þessar upplýsingar þar sem símalínur eru óvirkar og nánast ómögulegt er að eiga samskipti við þá sem eftir eru í borginni.

Skólinn hýsti 400 manns

Í skilaboðum á samskiptaforritinu Telegram kemur fram að skóli, sem hýsti um fjögur hundruð manns, hafi verið sprengdur af rússneskum hersveitum í gær.

Konur, börn og eldra fólk hafði leitað þar skjóls og eru mörg þeirra nú föst inni. Engar formlegar tölur hafa verið gefnar út varðandi mannfall.

„Friðsamlegir óbreyttir borgarar eru enn undir rústum byggingarinnar,“ segir í yfirlýsingu borgaryfirvalda.

Fólk flutt gegn vilja sínum til Rússlands

Þá hafa borgaryfirvöld einnig greint frá því að búið sé að ferja íbúa Maríupol gegn þeirra vilja til Rússlands. 

„Núna eru Rúss­arn­ir að fara í gegn­um alla kjall­ara og ef það eru ein­hverj­ir íbú­ar eft­ir þá taka þeir þá gegn sín­um vilja til Tag­an­rog,“ sagði Edú­ard Sar­úbin, lækn­ir sem yf­ir­gaf Maríupol fyrr í þess­ari viku, við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert