Saka Rússa um að ferja Úkraínumenn til Rússlands

Rússar hafa setið um borgina Mariupol síðustu tvær vikur. Borgaryfirvöld …
Rússar hafa setið um borgina Mariupol síðustu tvær vikur. Borgaryfirvöld segja 2.400 fallna í árásunum. AFP/Thomas Coex

Borgaryfirvöld í Mariupol segja Rússa hafa tekið þúsundir íbúa gegn vilja sínum og flutt þá yfir landamærin síðustu vikuna.

Þetta kemur fram á vef BBC en þar er tekið fram að ekki sé búið að staðfesta þessar ásakanir en að þó nokkrir vitnisburðir hafi komið fram um slíka atburði.

Píotr Andriusjenkó sagði við New York Times að búið væri að taka um fjögur þúsund íbúa og flytja þá til Taganrog, sem er rússnesk borg í Rostov-héraðinu sem liggur við landamæri Úkraínu. Hann sagði íbúana hafa verið tekna og vegabréf þeirra skilin eftir.

„Núna eru Rússarnir að fara í gegnum alla kjallara og ef það eru einhverjir íbúar eftir þá taka þeir þá gegn sínum vilja til Taganrog,“ sagði Eduard Sarúbin, læknir sem yfirgaf Mariupol fyrr í þessari viku.

Segja yfirvöld „aðstoða“ Úkraínumenn til Rússlands

Rússar hafa ekki ávarpað þessar ásakanir með beinum hætti en samkvæmt upplýsingum frá varnarmálaráðuneyti þeirra á föstudag hafa þúsundir Úkraínumanna óskað eftir því að flýja til Rússlands og sögðu þeir yfirvöld vera að aðstoða þá.

Í Mariupol geisa nú mikil átök milli rússneskra og úkraínskra hersveita en sprengjum hefur rignt yfir borgina látlaust síðustu tvær viku. Borgaryfirvöld segja 2.400 manns hafa látið lífið í átökunum.

Erfiðlega hefur gengið að ná samskiptum við þá sem eftir eru í borginni þar sem símalínur liggja niðri. Íbúar eru án vatns, rafmagns og gas. Þá eru matarbirgðir einnig af skornum skammti. Úkraínsk yfirvöld hafa einnig sakað Rússa um að hindra mannúðaraðstoð og koma í veg fyrir að hægt sé að aðstoða fólkið sem eftir er í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert