Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur lagt til að mögulegar friðarviðræður á milli hans og Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta fari fram í borginni Jerúsalem.
Selenskí þakkaði ísraelska forsætisráðherranum Naftali Bennett fyrir að reyna að greiða fyrir viðræðunum í myndbandi sem hann sendi frá sér seint í gærkvöldi.
„Við erum þakklát ... fyrir allt hans framlag. Fyrr eða síðar getum við byrjað samtalið við Rússa. Kannski í Jerúsalem,“ sagði Selenskí.
„Þetta er rétti staðurinn til að ná friðarsamkomulagi. Ef þetta er mögulegt.“
Bennett hefur talað við Selenskí og Pútín reglulega í síma, auk þess sem hann fundaði með Pútín í þrjár klukkustundir í Kreml 5. mars.