Heimsbyggðin „flýtur sofandi að feigðarósi í átt að loftslagshamförum“, að sögn Antonios Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna.
Stór hagkerfi leyfi mengun af völdum kolefnis að aukast á sama tíma og þörf sé á að draga mjög úr henni.
Guterres sagði á ráðstefnu 195 þjóða í London að markmiðið um að hlýnun jarðar aukist ekki um meira en 1,5 gráður væri nú þegar „í krítísku ástandi“.
Það að halda markmiðinu í 1,5 gráðum þýðir að draga þarf úr útblæstri kolefnis um 45% fyrir árið 2030, auk kolefnishlutleysis fyrir miðja öldina, að sögn Sameinuðu þjóðanna.
Þrátt fyrir að þjóðir heimsins fylgi Parísarsamkomulaginu hvað varðar útblástur þá er útlit fyrir að hann aukist um 14% áður en þessi áratugur er á enda.
„Vandinn er að versna,“ sagði Guterres. „Við fljótum sofandi að feigðarósi í átt að loftslagshamförum.
Ef við höldum áfram á sömu braut getum við kysst 1,5 gráðurnar bless,“ bætti hann við. „Það gæti jafnvel orðið erfitt að ná 2 gráðum.“