Hrifsuðu myndavélina af Óskari

Sex létust í árásinni á verslunarmiðstöðina í morgun.
Sex létust í árásinni á verslunarmiðstöðina í morgun. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari sem býr í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, fór í morgun á vettvang þar sem sprengjur Rússa féllu á verslunarmiðstöð í borginni.

Verslunarmiðstöðin er staðsett um 30 til 40 kílómetrum frá heimili Óskars og þegar hann kom á staðinn voru mættir þangað hátt í eitt hundrað blaðamenn og ljósmyndarar.

„Herinn var mjög agressífur í því hvað mátti taka myndir af og hvað ekki,“ segir Óskar.

Óskar Hallgrímsson.
Óskar Hallgrímsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eyddu myndinni

Á meðan hann var á staðnum var loftvarnarskeyti úkraínska hersins skotið á loft og ákvað hann að smella mynd af því. Það vildi ekki betur til en svo að hermennirnir hrifsuðu af honum myndavélina og eyddu myndinni. „Það er greinilega eitthvað viðkvæmt þarna í kring.“

Að sögn Óskar hefur rússneski herinn hörfað umtalsvert, sérstaklega norðvestanmegin við borgina, og getur því ekki notað hefðbundin skotfæri í sínum hernaði. Notast hann því frekar við flugskeyti, sem sum hver eru skotin niður af Úkraínumönnum.

Hermaður við einn þeirra staða þar sem ummerki sprenginganna sjást …
Hermaður við einn þeirra staða þar sem ummerki sprenginganna sjást vel, en gler hafði brotnað og dreifst á gangstéttina og götuna fyrir neðan. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Sökum þess að herinn hafi hörfað upp undir 70 km frá borginni segir Óskar ekki það sama vera að fara að gerast í Kænugarði og í borginni Maríupol, sem nánast sé verið að jafna við jörðu.

Hann segir Rússa enn geta skotið úr þotum sínum og komist þannig nálægt Kænugarði en loftvarnir Úkraínumanna skjóti þær margar hverjar niður. Nefnir hann töluna 90 í þeim efnum.

Tilkynnt hefur verið um útgöngubann í Kænugarði sem tekur gildi klukkan 18 að íslenskum tíma og ætlaði Óskar að fara í búðina til kaupa nauðsynjavörur áður en það átti að taka gildi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert