Olíufyrirtækið Saudi Aramco, sem er í eigu sádiarabíska ríkisins, ætlar að auka verulega þá upphæð sem fyrirtækið fjárfestir í orkuframleiðslu en hagnaður fyrirtækisins tvöfaldaðist árið 2021.
BBC greinir frá því að fyrirtækið stefni á að auka framleiðslu verulega á næstu fimm árum.
Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu 24. febrúar hefur heildsöluverð á olíu rokið upp og náði það methæðum. Leiðtogar ríkja hafa lýst miklum áhyggjum vegna þess.
Í síðustu viku fór Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, til Sádi-Arabíu til þess að reyna að fá yfirvöld til að auka afhendingu á olíu á heimsvísu til skamms tíma.
Sádi-Arabía framleiðir mest af olíu af olíuríkjum heims (OPEC).
Saudi Aramco segist ætla að auka fjárfestinguna í orkuframleiðslu um 45 til 50 milljarða bandaríkjadala á þessu ári en á síðasta ári var upphæðin um 32 milljarðar.
Í yfirlýsingu fyrirtækisins sagði að með fjárfestingunni myndi fyrirtækið geta framleitt 13 milljónir tunna af hráolíu á dag árið 2027 en í febrúar var sú tala um 10 milljónir tunna á dag.
Þá mun gasframleiðsla aukast um helming fyrir árið 2030.