Ekki hægt að vinna þetta stríð

Antonio Guterres.
Antonio Guterres. AFP

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna Antonio Guterres sagði í dag að Rússar þyrftu að enda þetta „fáránlega stríð“ í Úkraínu því það væri ekki hægt að vinna það. Ræddi hann við blaðamenn í höfuðstöðvum SÞ í New York. 

„Í meira en tvær vikur hefur Maríupol verið umkringd rússneska hernum og sprengd í tætlur. Til hvers?“ sagði hann. „Jafnvel þótt Maríupol falli í hendur Rússa, þá er ekki hægt að vinna Úkraínu, frá borg til borgar, stræti til strætis eða frá húsi til húss.“

Meiri þjáningar, eyðilegging og hryllingur

Hann sagði að eina niðurstaða stríðsins væri meiri þjáningar, meiri eyðilegging og meiri hryllingur hvert sem litið væri.

Samningamenn frá Kreml og Kænugarði hafa verið að reyna að semja í næstum fjórar vikur án nokkurs árangurs. Aðalritarinn sagði þó að hann teldi að samningaviðræðurnar væru að mjakast.

„Við höfum úr nógu að vinna til þess að það verði hætt að berjast og að sest verði við samninga af alvöru. Það er ekki hægt að vinna þetta stríð. Fyrr eða síðar þarf að færa samskiptin frá stríðsvellinum að friðarborðinu. Það er óhjákvæmilegt,“ bætti hann við.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna heldur neyðarfund vegna innrásarinnar á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert