Erdogan vill í Evrópusambandið

Recep Tayyip Erdogan vill ganga í Evrópusambandið sem fyrst.
Recep Tayyip Erdogan vill ganga í Evrópusambandið sem fyrst. AFP

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, leitaði til Evrópusambandsins í dag með bón um að enduropna viðræður um inngöngu Tyrkja í sambandið. Tyrkland sér möguleika í stöðunni meðan stríðið geisar í Úkraínu að Tyrkir geti gegnt hlutverki sáttasemjara milli Rússa og Úkraínu.

„Við búumst við að Evrópusambandið skoði umsókn okkar um inngöngu fljótt og að við getum hafið samningaviðræður,“ sagði Erdogan eftir samtal við Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands sem er í opinberri heimsókn í Tyrklandi.

Samningaviðræður um inngöngu Tyrklands í Evrópusambandið hófust árið 2005, en hafa verið á salti undanfarin ár vegna spennu milli Tyrklands og sambandsins, en Evrópusambandið hefur gagnrýnt Tyrki fyrir að vera að færast fjær lögum og reglu og öðrum gildum sem eru hornsteinar sambandsins. Sérstaklega versnuðu samskiptin eftir tilraun til valdaráns í júlí 2016 og eins hefur sambandið haft horn í síðu Tyrkja fyrir skort á málfrelsi og handtökum þúsunda, þ.á m. blaðamanna.

Fundað verður í Brussel á morgun þar sem forystumenn Evrópusambandslandanna hittast til að ræða stöðuna í Úkraínu og afleiðingarnar fyrir álfuna. Krísufundur verður einnig hjá NATO á fimmtudaginn vegna stríðsins.

Erdogan hefur þegar rætt við fjóra leiðtoga Evrópusambandsins og NATO síðustu tíu daga.  Tyrkland, sem er stuðningsaðili Kænugarðs og í NATO, hefur reynt að miðla málum milli Rússa og Úkraínu á sama tíma og þeir neita að styðja efnahagsrefsiaðgerðir Vesturlanda gegn Rússum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka