Segir Pútín hræddan

Alexei Navalní var í dag dæmdur í níu ára fangelsi.
Alexei Navalní var í dag dæmdur í níu ára fangelsi. AFP

Stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní sakaði Vladimír Pútín Rússlandsforesta um að hræðast sannleikann.

„[É]g hef alltaf sagt þetta. Að berjast gegn ritskoðun, að koma sannleikanum á framfæri við íbúa Rússlands var alltaf í forgangi hjá okkur,“ sagði Navalní í færslu á Instagram, eftir að hann var fundinn sekur um fjárdrátt í dag.

Hlaut hann níu ára fangelsisdóm fyrir vikið. 

Fangelsaður skömmu eftir eiturárás

Stjórnarandstæðingurinn hefur gagnrýnt Rússlandsforseta óspart. Á síðasta ári var hann fangelsaður vegna gamalla ásakana um fjársvik og hlaut hann tveggja og hálfs árs dóm. 

Var hann fangelsaður skömmu eftir að hann lifði af eiturárás sem hann sakar rússnesk stjórnvöld um að hafa staðið á bak við.

Ekki er ljóst sem stend­ur hvort tveggja og hálfs árs dóm­ur­inn er innifal­inn í níu ára dóm­in­um.

Lögfræðingar Navalnís færðir í gæsluvarðhald

Eftir að níu ára dómurinn féll í dag voru tveir lögfræðingar Navalní einnig handteknir og færðir í gæsluvarðhald.

Olga Míkaílova og Vadím Kobsev voru tekin höndum rétt fyrir utan fangelsið þar sem Navalní er vistaður í bænum Pokrov, sem er staðsettur nálægt Moskvu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert