Segja ekki nóg varið í viðræðurnar

Stjórnvöld Rússa vilja sjá viðræður milli þeirra og Úkraínumanna verða …
Stjórnvöld Rússa vilja sjá viðræður milli þeirra og Úkraínumanna verða virkari og efnismeiri. AFP/Klímentjev/Spútnik

Rússnesk stjórnvöld eru reiðubúin að halda áfram viðræðum við Úkraínumenn, sem miða að því að binda enda á hernaðaraðgerðir Rússa í nágrannaríki sínu. Aftur á móti vilja ráðamenn í Kreml sjá viðræðurnar, sem hafa lítinn árangur borið, verða efnismeiri.

„Það eru einhvers konar ferli í gangi. Við vildum gjarnan sjá virkari og umfangsmeiri viðræður,“ sagði Dmitrí Peskov talsmaður Kreml við blaðamenn í dag.

Þá sagði hann Úkraínumenn vel meðvitað um afstöðu Rússa sem afhentu kröfur sínar til þeirra fyrir þó nokkrum dögum.

„Við viljum fá efnismeiri og skjótari svör,“ bætti hann við.

Til þessa hafa viðræður ekki skilað miklum árangri og kenna leiðtogar ríkjanna tveggja hvorum öðrum um.

Tilbúinn að ræða beint við Pútín

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu ítrekaði tilboð sitt um beinar friðarviðræður við rússneska starfsbróður sinn Vladimír Pútín, seint í gær.

Selenskí sagði við blaðamenn að hann væri reiðubúinn að ræða við Pútín „með hvaða hætti sem er“ í þeim tilgangi að binda enda á stríðið sem hófst fyrir tæpum mánuði og hefur síðan þá splundrað úkraínsku samfélagi.

Selenskí sagði að leiðtog­arn­ir tveir gætu rætt um stöðuna á Krímskaga, sem Rúss­ar her­tóku á sín­um tíma, og á Don­bas-svæðinu í aust­ur­hluta lands­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert