Tilbúinn í beinar friðarviðræður við Pútín

Selenskí Úkraínuforseti.
Selenskí Úkraínuforseti. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur ítrekað tilboð sitt um beinar friðarviðræður við Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Hann segir þá geta rætt um stöðu svæða sem deilt hefur verið um og að mögulega væri hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess.

Selenskí sagði við fjölmiðla í heimalandi sínu að hann væri tilbúinn að hitta Pútín „með hvaða hætti sem er“ til að ræða um að binda enda á næstum eins mánaðar langt stríð í Úkraínu sem hefur farið illa með þó nokkrar úkraínskar borgir.

Vladimír Pútín.
Vladimír Pútín. AFP

Selenskí sagði að leiðtogarnir tveir gætu rætt um stöðuna á Krímskaga, sem Rússar hertóku á sínum tíma, og á Donbas-svæðinu í austurhluta landsins.

„Á fyrsta fundinum með forseta Rússlands er ég tilbúinn til að ræða þessi mál,“ sagði Selenskí.

„Það verða ekki áköll um eitt eða neitt eða sögulegar ræður. Ég myndi ræða öll málefni við hann í miklum smáatriðum,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert