Þrátt fyrir linnulausar loftárásir Rússa í meira en þrjár vikur er úkraínski herinn kominn í sókn á nokkrum svæðum. Þetta var haft eftir talsmanni bandaríska varnarmálaráðuneytisins í dag.
Árásir Rússa hafa lagt í rúst fjölda úkraínskra borga frá því þeir réðust inn í Úkraínu með mörg þúsund manna herlið 24. febrúar. Mannfall eykst stöðugt og meira en tíu milljónir manna hafa flúið heimili sín.
Engin lausn á stríðsátökunum virðist í sjónmáli.
Þrátt fyrir það hefur Úkraína staðið fast gegn árásunum, með herstuðningi frá Vesturlöndum, og sýnt ótrúlegan styrkleika í þessum aðstæðum.
John Kirby, talsmaður Pentagon, sagði í samtali við CNN í dag að úkraínski herinn væri kominn úr vörn og farinn í sókn á sumum svæðum.
„Þeir eru að ráðast á Rússana og koma þeim til að hörfa, sérstaklega í Mykolaív í suðri. Við höfum séð þetta verið að aukast allra síðustu daga.“
John Kirby sagðist ekki geta staðfest þær fregnir að Úkrínumenn hefðu náð einum bæ af Rússum og hygðu á fleiri yfirtökur á næstu dögum. „Það væri þó í takt við hvernig þeir eru að berjast og þá færni sem við höfum séð úkraínska hermenn beita,“ sagði hann.
Kirby tók undir að rússneski herinn væri kraftminni núna en í upphafi.
„Þeir eru á síðustu metrunum. Þeir eru matarlitlir. Þeir eru ekki að skipuleggja gjörðir sínar á samræmdan máta, eins og búast mætti við af nútímaherliði,“ sagði hann og vísaði í samskiptaörðugleika milli flughers og landgönguliðs, sem væru stundum að nota farsíma til samskipta.