Næstum 100 þúsund manns eru fastir í rústum úkraínsku hafnarborgarinnar Maríupol og þurfa að takast á við hungursneyð, þorsta og stanslausar sprengjuárásir Rússa. Þetta sagði Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, í myndbandsávarpi sínu.
Tugir þúsunda íbúa hafa þegar flúið borgina, þar sem umsátur ríkir, og hafa þeir lýst ástandinu sem „ísköldu helvíti á jörðu uppfullu af líkum og eyðilögðum byggingum“, að sögn Mannréttindavaktarinnar (Human Rights Watch).
Í ávarpi sínu sagði Selenskí að yfir sjö þúsund manns hafi flúið borgina síðustu 24 klukkustundirnar. Engu að síður hafi einn hópur sem ferðaðist eftir viðurkenndri flóttamannaleið í vesturhluta borgarinnar „einfaldlega verið handtekinn af hernum“.
Hann varaði við því að þúsundir í viðbót komist ekki í burtu frá borginni.
„Í dag dvelja næstum 100 þúsund manns í borginni við ómannúðlegar aðstæður. Í algjöru umsátursástandi. Án matar, vatns, lyfja og þurfa að búða við stanslausar skot- og sprengjuárásir,“ sagði Selenskí og skoraði á Rússa að leyfa almennum borgurum að yfirgefa borgina eftir öruggum flóttamannaleiðum.