Búa sig undir eldgos á Asóreyjum

Asóreyjar. Mynd úr safni.
Asóreyjar. Mynd úr safni. Ljósmynd/Colourbox

Fjölmargir litlir jarðskjálftar hafa mælst á Asóreyjum undanfarna daga og segja sérfræðingar að eldgos geti verið yfirvofandi. Á eldfjallaeyjunni Sao Jorge hafa mælst um 1.800 skjálftar frá því á laugardag.

Tilkynnt var um röð lítilla skjálfta meðfram gossprungunni Manadas sem gaus síðast árið 1808 og hafa yfirvöld beðið fólk um að ferðast ekki til eyjanna.

Sao Jorge er ein af níu eyjum sem mynda Asóreyjar í Norður-Atlantshafi þar sem búa rúmlega 8.000 manns. Búið er að virkja neyðaráætlanir í varúðarskyni.

Fréttastofa Reuters hafði það eftir yfirmanni eftirlitsstöðva á svæðinu að aðstæður gætu leitt til jarðskjálfta af meiri stærðargráðu og að einnig væri möguleiki á eldgosi.

Skyndileg aukning í skjálftavirkni svipar til þeirrar skjálftahrinu sem kom á undan gosinu í Cumbre Vieja-eldfjallinu á La Palma, sem er hluti af Kanaríeyjum. La Palma er um 1.400 kílómetra suðaustur af Asóreyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert