Það eru engar góðar fréttir í stríði segir Óskar Hallgrímsson ljósmyndari og íbúi í Kænugarði í Úkraínu. Landher Rússa hefur undanfarna daga og vikur átt á brattann að sækja í Úkraínu, en flugskeytum hefur haldið áfram að rigna yfir borgina, þó að þau séu í flestum tilvikum skotin niður af her Úkraínu.
„Rússar eru að tapa þessu stríði en á móti kemur að þeir eru nánast engingu farnir að skjóta á borgaraleg skotmörk og farnir að breyta hrottalegum vinnubrögðum,“ segir Óskar. „Þeir henda handsprengjum inn í hús, safna saman bílum og ráðast síðan á þá. Þeir fóru og skutu á elliheimili og drápu 56 eldriborgara. Þessir hlutir eru að gerast út um allt land. Sorgin og reiðin er farin að taka á. Það eru komnar fjöldagrafir fyrir börn í Maríupol því þeir hafa verið að ráðast á barnaspítala. Ég get haldið áfram endalaust að lista upp þessa stríðsglæpi,“ segir Óskar.
Úkraínski herinn er vel vopnum búinn að sögn Óskars og sömuleiðis töluvert betur búinn en sá rússneski þegar kemur að fatnaði og fæði. Rússneskir hermenn hafi jafnvel brugðið á það ráð að stela skófatnaði af úkraínskum hermönnum þar sem búnaður þeirra síðarnefndu sé þeim mun betri. Þá séu úkraínskir hermenn töluvert betur hvíldir en þeir rússnesku.
„Þeir eru búnir að vera í þessu stríði í átta ár og þeir eru mjög góðir í að vera í þessu stríði,“ segir Óskar og bætir við;
„Hinum megin er allt hrunið, það er engin yfirstjórn yfir rússneska hernum, hún er öll fallin. Allar samskiptalínur hafa hrunið og þeir þurfa að treysta á farsíma. Þeir hafa þurft að ræna öllum mat og eru ekki með eldsneyti. Það er svo margt sem er að svo að landherinn er eitthvað sem fólk hefur engar áhyggjur af.“
„Maður heyrir allan daginn sprengjur í loftinu, þegar það er verið að skjóta á sprengjur á leiðinni hingað inn,“ segir Óskar, en síðustu daga og vikur, eftir því sem landher Rússa hefur veikst og þurft að grípa til varna víða í Úkraínu, hefur árásum úr lofti fjölgað. Í Kænugarði eru flest flugskeyti skotin niður af úkraínska hernum, en annarsstaðar, til að mynda í Maríupol, hafa skeytin oft náð skotmarki sínu og sprengjum ringt yfir borgina.
Óskar bendir á að Atlantshafsbandalagið hafi hingað til ekki viljað senda friðargæsluliða til Úkraínu af ótta við frekari átök við Rússa á svæðinu.
„Hvenær kallar þú þjóðarmorð þjóðarmorð? Hvenær finnst þér það nóg til að senda friðargæsluliða?“ spyr Óskar. Hann segir mikilvægt að þeir sem búi við öryggi skilji sig ekki frá raunveruleika stríðsins í Úkraínu.