Saka Rússa um að beita ólöglegu vopni

Sprengjum hefur rignt yfir borgir Úkraínu.
Sprengjum hefur rignt yfir borgir Úkraínu. AFP/Fadel Senna

Vísbendingar eru uppi um að rússneskar hersveitir hafi verið að nota hvítan fosfór í loftárásum á svæði óbreyttra borgara í stríðinu gegn Úkraínumönnum. Ef þetta reynist satt hafa Rússar gerst brotlegir gagnvart ákvæðum Genfarsáttmálans frá árinu 1949. Þetta herma heimildir Independent og Times.

Talið er að skotvopnum með hvítum fosfór hafi verið beitt gegn borgurum í Kramatorsk á mánudag í austurhluta Úkraínu. Þá er einnig talið að slíku vopni hafi verið beitt í útjaðri Kænugarðs seint í gær.

Áhyggjur eru uppi um að Vladimír Pútín muni brátt grípa til efnavopna í stríðinu gegn Úkraínu. Margir segja sókn hans hafa staðnað en misfarir rússneska hersins hafa að miklu leyti einkennt þetta stríð sem nú er háð í Evrópu. Hvítur fosfór er afar skaðlegur en ekki eru allir á sama máli um hvort hann heyri undir skilgreiningu efnavopna.

Í tísti Inna Sovsun, úkraínsk þingmanns, má sjá myndir sem voru teknar í útjaðri Kænugarðs. 

Telja Rússa vera að undirbúa notkun efnavopna

Rússar hafa verið að saka Úkraínumenn um að vera að undirbúa notkun efna- og sýklavopna. Þykir þetta benda til þess að rússneskar hersveitir fari bráðum sjálfar að grípa til slíkra vopna og að þessar ásakanir séu í raun bara hernaðarbragð.

Rússar hafa einnig verið sakaðir um að beita klasasprengjum í stríðinu og hitasprengjur en þær geta rifið gat á lungu og ollið miklum skemmdum á innyflum.

Dmítri Peskov, talsmaður Kreml, sagði í gær að Rússar væru reiðubúnir að grípa til kjarnavopna ef tilvist Rússlands væri ógnað.

Ekki efnavopn

Hvítur fosfór, sem brennur þegar hann kemst í snertingu við súrefni, hefur oft verið notaður til að merkja skotmörk óvina og framkalla reykmökk til að fela hreyfingu hermanna.

Hann getur einnig verið notaður til að kveikja elda en hann getur brunnið í gegnum bein ef hann kemst í snertingu við hold. Hann getur drepið, limlest og eitrað fyrir fórnarlömbum.

Notkun fosfór er bönnuð á svæðum óbreyttra borgara samkvæmt alþjóðalögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert