Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, tilkynnti í dag að Rússland myndi héðan í frá aðeins samþykkja greiðslur fyrir eldsneyti í rúblum frá „óvinveittum þjóðum“, sem eru allar Evrópusambandsþjóðirnar eftir að efnahagsrefsiaðgerðir gegn Rússlandi tóku gildi vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
„Ég hef ákveðið að setja ákveðnar reglur um hvernig hægt verði að greiða fyrir eldsneyti okkar til óvinveittra þjóða og við munum eingöngu samþykkja greiðslur í rúblum,“ sagði Pútín á stjórnarfundi sem var sjónvarpað. Reglurnar eiga að taka gildi innan næstu sjö daga.
„Rússland mun aðeins halda áfram að selja eldsneyti í því magni sem ákvarðað var í fyrri samningum.“
Pútín lýsti einnig frystingu eigna Rússa erlendis sem ólöglegri og að Bandaríkin og Evrópusambandið hefðu ekki staðið við skuldbindingar sínar við Rússland. „Nú vita allir í heiminum að skuldbindingar í dölum er hægt að svíkja,“ bætti hann við.
Strax eftir fundinn styrktist rúblan á markaði gegn bandaríkjadal og evru.