Framhaldsskólum stúlkna var lokað í Afganistan í morgun aðeins örfáum klukkustundum eftir að þeir opnuðu aftur.
„Já, það er satt,“ sagði Inamullah Samangani talsmaður talíbana við blaðamenn AFP þegar hann var beðinn um að staðfesta þær fregnir að stúlkunum hefði verið skipað heim.
„Okkur er óheimilt að tjá okkur um þetta,“ sagði Aziz Ahmad Rayan, talsmaður menntamálaráðuneytisins.
Fréttateymi á vegum AFP var við tökur í Zarghona-menntaskólanum í Kabúl, höfuðborg Afganistans, þegar að kennari gekk inn í kennslustofuna og sagði þeim að kennslunni væri lokið.
Nemendurnir, sem voru nýsestir aftur á skólabekk eftir að talíbanar tóku völdin í ágúst, pökkuðu saman föggum sínum og yfirgáfu stofuna, margir með tárin í augunum.
Deborah Lyons, sendiherra Sameinuðu þjóðanna, sagði fréttir af lokuninni truflandi.
„Ef þetta er satt, hver gæti ástæðan mögulega verið?,“ sagði hún í tísti.
Þegar talíbanar rændu völdum var skólum lokað vegna Covid-19-heimsfaraldursins. Einungis drengjum og yngri stúlkum var leyft að hefja nám að nýju tveimur mánuðum síðar.
Óttast var að talíbanar myndu leggja niður alla formlega menntun stúlkna, eins og gert var í fyrri valdatíð þeirra á árunum 1996 til 2001.
Aftur á móti hefur réttur allra til menntunar verið gerður að skilyrði í samningaviðræðum alþjóðasamfélagsins við talíbana um aðstoð vegna matar- og vatnsskorts, og einnig í viðræðum um viðurkenningu á nýju talíbanastjórninni. Hafa nokkrar þjóðir boðist til að borga kennurum.
Í dag átti nám stúlkna að hefjast aftur. Skipulaginu var þó ekki fylgt almennilega eftir og var opnun einhverra skóla frestað um mánuð í viðbót. Þó nokkrir stúlknaskólar í höfuðborginni opnuðu þó aftur.
Talíbanar hafa ítrekað haldið því fram að þeir hafi ætlað sér að tryggja menntun stúlkna á aldrinum 12 til 19 ára, og að þeir séu ekki að gera það vegna þrýstings frá alþjóða samfélaginu. Aftur á móti verði það að vera gert rétt og samkvæmt reglum þeirra.
Frá því að þeir komust til valda síðastliðið sumar hafa þeir þjarmað að réttindum kvenna, bannað þeim að gegna ákveðnum opinberum störfum og hafa jafnframt haldið úti ströngu eftirliti með klæðaburði þeirra. Þá hafa þó nokkrar konur verið handteknar sem hafa barist fyrir auknu jafnrétti.
Þrátt fyrir að skólar opni að fullu aftur eru enn margar hindranir í vegi stúlkna. Til að mynda eru margar fjölskyldur tortryggnar í garð talíbana og vilja helst halda stúlkum og konum inni.