Verstu mögulegu refsiaðgerðirnar

Ekki er hægt að stöðva innrás Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta nema …
Ekki er hægt að stöðva innrás Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta nema með því að herða aðgerðirnar til muna og stöðva kaup á jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. AFP/Mikaíl Kímentív

Það liggur nú ljóst fyrir að refsiaðgerðir Vesturlanda, sem eru með þeim hörðustu sem gripið hefur verið til frá upphafi, duga ekki til að stöðva innrás Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í Úkraínu.

Rúblan, rússneski gjaldmiðillinn, er nú orðin stöðug aftur og allt stefnir í að stjórnvöld geti opnað á ný fyrir hlutabréfaviðskipti á rússneska verðbréfamarkaðnum.

Á meðan Rússar geta enn selt jarðefnaeldsneyti til ríkja Evrópu mun þeim takast að lifa með þeim þvingunum sem hafa verið lagðar á þá.

Rússneskar hersveitir munu halda áfram að myrða Úkraínumenn nema gripið verði til mun harðari aðgerða.

Það þýðir einungis eitt: Vesturlönd verða að hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti af Rússum, vilji þau sjá einhvern árangur.

Svo segir í grein Ambrose Evans-Pritchard í dagblaðinu Telegraph.

Getum ekki farið fram á að aðrir hætti viðskiptum

Þar kemur fram að hagkerfi Rússa þurfi vissulega að taka á sig skell og að útflutningsverð á jarðefnaeldsneyti hafi vissulega fallið, en áhrif refsiaðgerðanna séu þó ekki óyfirstíganleg.

Hagkerfið muni í raun verða tiltölulega fljótt að ná sér. 

Rússar eru að selja hráolíu með miklum afslætti en verðið er nú þegar farið að hækka aftur frá því það tók dýfu rétt eftir að innrásin í Úkraínu hófst.

Indland og fleiri ríki berjast nú um að ná besta verðinu og halda áfram að kaupa af þeim eldsneyti. „Á meðan Evrópa er enn að stunda viðskipti við þá, af hverju ættu ríki í fjarlægum Asíulöndum að hætta því?“ spyr Evans-Pritchard.

Útflutningur kominn í eðlilegt horf innan skamms

Erlendur gjaldeyrisforði Rússa er einnig nægur til að halda þjóðinni á floti í langan tíma. Þvinganir Vesturlanda gegn seðlabankanum eru ekki jafn mikið rothögg og búist var við í byrjun, og heldur ekki útilokun ákveðinna rússneskra banka frá SWIFT-kerfinu.

Glufurnar í refsiaðgerðunum gera það að verkum að höggið verður ekki jafn mikið.

Samkvæmt greiningu Clemens Grafe, hjá Goldman Sachs fjárfestingabankanum, mun hagkerfi Rússlands dragast saman um 10% á árinu, sem er ekki nóg til að brjóta það niður þótt áhrifin verði vissulega mikil.

Hægt og rólega mun hagkerfið taka við sér á ný og strax á næsta ári verður það búið að endurheimta 2,4% af styrk sínum og árið eftir mun það styrkjast enn frekar um 3,4%, samkvæmt greiningunni.

Þá mun útflutningur nánast verða kominn í eðlilegt horf í byrjun næsta árs, eða í 98% af fyrri getu. Viðskipti Rússa munu ekki leggjast niður heldur verður þeim beint á nýjar slóðir.

Það gæti þó orðið einhver vöruskortur á meðan vestrænum vörum í búðarhillunum er skipt út fyrir innlenda framleiðslu.

Reiða sig minna á aðfangakeðjur 

Þar sem Rússland er ekki að fullu samþætt inn í alþjóðlegar aðfangakeðjur, hafa takmarkanir á inn- og útflutningi ekki jafn eyðileggjandi áhrif og mætti halda, segir Grafe. 

Ríflega 80% af landsframleiðslunni koma frá atvinnugreinum sem reiða sig lítið á innflutning. Þetta efnahagsfyrirkomulag er gjörólíkt því sem þekkist víða á Vesturlöndunum.

Þá er vakin athygli á því að Íran komst í gegnum harðari refsiaðgerðir án þess að hafa gefið eftir.

Ekki leið á löngu þar til stjórnvöldum þar tókst að laga sig að ástandinu.

Í greininni vitnar Evans-Pritchard einnig í Nick Mulder, prófessor við Cornell-háskóla og höfund The Economic Weapon.

Að hans sögn hafa refsiaðgerðir skilað litlu sem engu í gegnum tíðina þegar kemur að því að stöðva stríðsrekstur. Þar að auki hafi Pútín skipulagt þessa innrás fyrir mörgum árum. 

Er hann sagður hafa byggt upp virki í kringum hagkerfi Rússlands og hófst sú uppbygging árið 2014, þegar Rússar gerðu innrás á Krímskaga.

Klofningur vegna aðgerða

Nú hyggst Evrópusambandið taka næsta skref í refsiaðgerðum vegna stríðsins. Gæti það meðal annars falið í sér að skerða kaup á jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi.

Sú tillaga hefur mætt mikilli mótspyrnu frá Þjóðverjum sem reiða sig á gas frá þeim. Telja þeir sig ekki geta komist af án þess.

„Við erum að nálgast endalok marsmánaðar. Veturinn er að verða búinn og Evrópa er með nóg gas til að endast út haustið,“ segir í grein Evans-Pritchard.

Hann vísar einnig í orð Moritz Schularick, prófessors við Bonn-háskóla, sem telur það ekki ómögulegt fyrir Þjóðverja að hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti af Rússum. Landsframleiðslan myndi mögulega dragast saman um 3% á þessu ári, eða því sem nemur 120 milljörðum evra.

Það væri þó enginn heimsendir.

„Ef Evrópa myndi lækka hitann á heimilum úr 22 gráðum í 19, líkt og gerðist í mörgum ríkjum í kreppunni árið 1973, þá myndi það nema einum fimmta af magninu frá Rússlandi.“

Þá telur hann að hægt sé að skera aðeins niður í stóriðjunni þannig að það myndi einungis hafa lítil áhrif á landsframleiðsluna.

Einnig hægt að minnka olíunotkun

Einnig væri hægt að grípa til ýmissa aðgerða til að minnka olíunotkun, eins og til dæmis lækka hámarkshraða, takmarka notkun bíla við ákveðna daga vikunnar og skera niður flugsamgöngur.

Samanlagt gæti sparnaðurinn komið til móts við það jarðefnaeldsneyti sem Rússar selja Evrópuríkjum.

„Þetta vandamál snýst ekki lengur um hvort það sé hægt, heldur hvort Evrópa hafi nægilegt pólitískt hugrekki til að láta reyna á það. Það sem liggur ljóst fyrir er að refsiaðgerðir vestrænna ríkja eru versta mögulega útgáfan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert