Bandaríkin og bandamenn þeirra í Atlantshafsbandalaginu ræða nú um að láta Úkraínumönnum eldflaugar í té sem hægt er að nota gegn rússneskum herskipum.
Tilefni viðræðnanna er árásir rússneskra herskipa gegn hafnarborgum Úkraínu.
„Samráð við bandamenn okkar um að útvega Úkraínu eldflaugar sem hægt er að nota gegn skipum er hafið,“ sagði bandarískur embættismaður sem ekki vildi láta nafns síns getið í samtali við AFP.
„Það gætu verið einhverjar tæknilegar áskoranir sem við þurfum að takast á við til þess að gera slíkt að veruleika en nú erum við að ræða við bandamenn okkar og byrjuð að vinna að þessu.“
Fundur Atlantshafsbandalagsins um stöðuna stendur nú yfir í Brussel.
Leiðtogar Atlantshafsríkjanna kölluðu þar eftir því að kínversk stjórnvöld mótmæli innrás Rússa og vinni að friðsamlegum endi á stríðinu.
Fyrr á fundinum í dag bað Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, Atlantshafsbandalagið um ótakmarkaða hernaðaraðstoð.
„Þið getið gefið okkur eitt prósent af flugvélum ykkar. Eitt prósent af skriðdrekum ykkar. Eitt prósent!“ sagði hann.