„Bingóvöðvinn“ þrætuepli

Þessa lausu húð kalla sumar norskar fegrunarstofur greifynjuhengi eða „grevinneheng“ …
Þessa lausu húð kalla sumar norskar fegrunarstofur greifynjuhengi eða „grevinneheng“ á meðan íslenskir gárungar hafa löngum notast við „bingóvöðvann“ sem margir kannast við. Ljósmynd/Shutterstock

Norska heilbrigðiseftirlitið, Statens helsetilsyn, biðlar bréflega til einkarekinna stofa í fegrunaraðgerðageiranum að leggja af notkun hugtaka á borð við „reiðbuxnalæri“, „kalkúnaháls“ og „greifynjuhengi“ í markaðsefni sínu, um ýmsa líkamshluta sem viðskiptavinir þeirra leita umbóta á með fitusogi eða öðrum aðgerðum.

Á norsku útleggjast nefnd hugtök „ridebukselår“, „kalkunhals“ og „grevinneheng“, en það síðasttalda, greifynjuhengið, er einmitt það sem gárungar íslenskir hafa haft í flimtingum sem „bingóvöðva“ og má sjá á meðfylgjandi mynd.

„Þetta eru hugtök sem samkvæmt lögum og reglugerðum er óheimilt að nota,“ segir Anne Myhr, deildarstjóri hjá heilbrigðiseftirlitinu, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, „þau gefa það til kynna að æskilegt sé að gera breytingar á einhverju sem er bara eðlilegt fyrirbæri á mannslíkama,“ heldur hún áfram.

Áttar sig ekki á vandanum

Í kjölfar athugunar embættis Myhr á markaðsefni norskra fegrunaraðgerðastofa í febrúar var tekin ákvörðun um að senda 15 stofum bréf og fara þess á leit að þær fjarlægðu myndefni af líkamshlutum fyrir og eftir aðgerðir auk þess að láta af notkun gildishlaðinna hugtaka á borð við þau sem dæmi eru nefnd um hér að ofan.

Lars Berg-Larsen, læknir og framkvæmdastjóri Klinikk Stavanger, sem býður upp á ýmsar fegrunaraðgerðir, sér enga meinbugi á þessari hugtakanotkun, en stofa hans notar flest framangreint auk „bílhringja“, eða „bilringer“, sem vísa til síðuspiks með líkingu við hjólbarða bifreiðar, samanber varadekk eða björgunarhring sem heyrst hefur fleygt á ástkæra ylhýra.

„Allir vita hvað þessi orð tákna og ég átta mig ekki á vandamálinu við notkun þeirra,“ segir Berg-Larsen við NRK og bendir á að viðskiptavinir stofu hans slái sjálfir um sig með reiðbuxnalærum og fleiri gælunöfnum.

„Við notum reyndar ekki kalkúnaháls, en ef við ætlum að kalla greifynjuhengi og reiðbuxnalæri eitthvað annað gætum við ef til vill notað hugtök á borð við laus húð á neðri hluta handleggjarins og fitusöfnun ofarlega á læri,“ segir hann enn fremur og kveður sína stofu ekki hafa fengið bréf frá yfirvaldinu enn.

Ótækt að nota dýr sem dæmi

Auk NRK hefur fagtímaritið Dagens Medisin, sem kemur út hálfsmánaðarlega, fjallað um erindi heilbrigðiseftirlitsins. Veronica Simoné Fjeld blaðamaður er dálkahöfundur um samfélagsmálefni og kveðst ánægð með útspil eftirlitsins. „Mér finnst mjög jákvætt að við höfum eftirlitsstofnun hér í Noregi sem áttar sig á að þetta er vandamál og gerir eitthvað til að breyta því,“ segir Fjeld.

Er hún þeirrar skoðunar að allir sem fást við markaðsmál á sviði fegrunaraðgerða ættu að íhuga vel hverjir markhópar þeirra séu og hverjir fái auglýsingaefni þeirra í símana sína. „Þar er oftast um að ræða ungt fólk, einkum stúlkur. Nær væri að finna leiðir til að tjá sig þannig að það virki uppbyggilega fyrir fólk frekar en að brjóta það niður,“ segir Fjeld.

NRK spyr að lokum tvo framhaldsskólanema, þau Julie Valine Kjelsnes Gimre og Jonas Kjellerød, hvort þeim séu töm hugtök á borð við kalkúnaháls. Svo kveða þau ekki vera og fá skýringu á málinu.

„Þessu fylgir stimpill. Með kalkúnahálsi er verið að nota dýr sem dæmi,“ segir Kjellerød, en Gimre segir þarna gert vandamál úr einhverju sem sé fullkomlega eðlileg þróun. „Ég sé ekki vandamálið við að vera með slíka húð. Þegar maður eldist verður húðin lausari. Enginn lítur á sextuga konu og finnst hún ljót vegna þess að hún er með lausa húð,“ segir hún og bætir því við að með slíkri hugtakanotkun sé verið að búa til vandamál sem fólk vilji þá leysa með fegrunaraðgerðum.

NRK

Dagens Medisin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert