Hörmungar vegna mannfalls efst í huga Katrínar

Fyrir fund Atlantshafsbandalagsins í morgun. Í forgrunni eru (f.v.) Joe …
Fyrir fund Atlantshafsbandalagsins í morgun. Í forgrunni eru (f.v.) Joe Biden Bandaríkjaforseti, franski kollegi hans Emmanuel Macron, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðhera Íslands og breski kollegi hennar Boris Johnson. AFP

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sátu í dag leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Brussel. Þar eru saman komnir allir leiðtogar bandalagsins, G7-ríkjanna og Evrópusambandsins eru samankomnir vegna stríðsins í Úkraínu. Volodímír Selenskí, forseti Úkraínu, talaði á fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

Bitnar á saklausum borgurum

„Hörmungar vegna mannfalls og eyðileggingar í Úkraínu eru mér efst í huga, stríð bitna fyrst og fremst á saklausum borgurum. Konur og börn eru sérstaklega útsett fyrir stríðsglæpum, þar með talið kynbundnu ofbeldi, og við því þarf alþjóðasamfélagið að bregðast. Stilla þarf tafarlaust til friðar og mikilvægt er að halda til streitu kæru gegn Rússlandi fyrir Alþjóðaglæpamannadómstólnum“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um stríðið í Úkraínu í tilkynningu. 

150 milljóna króna viðbótarframlag

Íslensk stjórnvöld hafa veitt rúmlega hálfum milljarði króna til mannúðarstarfa í Úkraínu en tilkynntu um 150 milljóna viðbótarframlag til alþjóðlegs hjálparstarfs í landinu.

Í yfirlýsingu frá fundinum er innrásin harðlega fordæmd og Rússar hvattir til að hætta stríðsrekstrinum strax og setjast að samningaborði. Ástandið í borginni Maríupol var sérstaklega minnst á og beðið um að borgarar gætu yfirgefið borgina eftir öruggum flóttaleiðum. Samþykkt var að styrkja varnir á austurvæng NATO og herlið verður sent Ungverjalands, Slóvakíu, Búlgaríu og Rúmeníu.

Katrín ræddi við Jonas Gahr Störe, forsætisráðherra Noregs og Nicolae Ciucă, forsætisráðherra Rúmeníu. Síðan sat hún ásamt utanríkisráðherra fund með Irinu Feller, sem er nýr fulltrúi NATO fyrir konur, frið og öryggi, sem er málaflokkur sem Ísland leggur mikla áherslu í samstarfinu við Atlantshafsbandalagið. Eftir fundinn heimsótti forsætisráðherra höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert