Selenskí vill ótakmarkaða hernaðaraðstoð frá NATO

Fyrir fund Atlantshafsbandalagsins í morgun. Í forgrunni eru (f.v.) Joe …
Fyrir fund Atlantshafsbandalagsins í morgun. Í forgrunni eru (f.v.) Joe Biden Bandaríkjaforseti, franski kollegi hans Emmanuel Macron, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðhera Íslands og breski kollegi hennar Boris Johnson. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hvatti Atlantshafsbandalagið (NATO) í dag að veita úkraínskum stjórnvöldum ótakmarkaðan aðgang að hernaðaraðstoð. Um mánuður er síðan rússneskar hersveitir réðust inn í Úkraínu.

„Til þess að bjarga fólkinu okkar og borgunum þarf Úkraína ótakmarkaða hernaðaraðstoð, á sama hátt og Rússland notar sín vopnabúr gegn okkur af fullum krafti,“ sagði Selenskí á fundi með Atlantshafsbandalaginu í Brussel í morgun. 

Selenskí tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað. 

Hann þakkaði bandalaginu fyrir þau varnarvopn sem það hefur nú þegar látið Úkraínu í té en bað um vopn til þess að berjast með. 

„Þið getið gefið okkur eitt prósent af flugvélum ykkar. Eitt prósent af skriðdrekum ykkar. Eitt prósent!“

Selenskí ræddi við Atlantshafsbandalagið í gegnum fjarfundabúnað.
Selenskí ræddi við Atlantshafsbandalagið í gegnum fjarfundabúnað. AFP

Sakaði rússneskar hersveitir um notkun fosfórvopna

Á fundinum sakaði hann Rússa um að nota fosfórvopn gegn Úkraínumönnum.

„Í morgun, á meðan ég man, voru fosfórsprengjur notaðar. Rússneskar fosfórsprengjur. Fullorðið fólk lést [í árásinni] og börn líka.“

Fosfórsprengjur eru mjög öflugar; þær geta valdið mikilli eyðileggingu á stórum svæðum og logar úr slíkum sprengjum geta orðið rúmlega 800 gráðu heitir. Notkun á sprengjum sem þessum getur því leitt til lífshættulegra meiðsla og langdregins dauða.

Notk­un fos­fór er bönnuð á svæðum óbreyttra borg­ara sam­kvæmt alþjóðalög­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert