Eldamennskan streitumeðferð á stríðstíma

Karine og nágrannakona hennar Lilia á gönguferð um daginn í …
Karine og nágrannakona hennar Lilia á gönguferð um daginn í Karkív. Karine segir matargerðina hjálpa til við að draga úr streitu vegna stríðsins. Ljósmynd/Karine

Hvað er það sem almennir íbúar í Úkraínu borða og þá sérstaklega nú þegar stríð er í gangi og úrval matvöruverslana ekki upp á sitt besta. Karíne gefur okkur smá innsýn inn í hvað það er sem hún og maðurinn hennar borða og hvernig þau eiga fyrir mat þegar innkoman er engin.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­ine í borg­inni Karkív í austu­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is reglu­leg­um dag­bók­ar­færsl­um sín­um um ástandið, upp­lif­un sína og hvað er efst í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð hef­ur brot­ist út í eig­in landi.

Karíne í Karkív

Í dag langar mig að skrifa um mat. Þann 24. Febrúar, daginn þegar stríðið hófst, áttum við engan sparnað og litlar matarbirgðir. Við áttum þetta hefðbundna í eldhússkápnum og ísskápnum og eitthvað af dýramat fyrir páfagaukinn okkar og hundinn.

Klukkan 5 að morgni þennan dag heyrðum við fyrstu stórskotasprengingarnar og sáum leiftur af sprengjum. Fljótlega áttuðum við okkur á að innrás Rússa væri hafin og sáum stórskotaliðsárás þeirra á Tsjúgúív. Við vissum að Rússar gætu ráðist á Úkraínu eftir stríðið 2014, en okkur hafði ekki dottið í hug að árásin yrði svona yfirgengileg.

Fólk fór strax að kaupa mat og taka út peninga úr hraðbönkum. Eiginmaður minn keypti eitthvað af nauðsynjavörum og nágranni okkar hjálpaði okkur og gaf okkur kartöflur sem ég notaði í dumplings, en kartöfludumplings (vareniks) er sígildur réttur í Úkraínu. Þá gerði ég einnig laukböku og úkraínska rauðrófusúpu (borscht).

Vareniks er sígildur réttur í Úkraínu. Dumplings með kartöflustöppu inn …
Vareniks er sígildur réttur í Úkraínu. Dumplings með kartöflustöppu inn í. Ljósmynd/Karine

 

Ég á mjólkurgeril sem getur búið til kefir úr mjólk og stundum bý ég til ost úr þessum heimagerða kefir. Gerillinn þarf daglega að fá mjólk og þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að geta fengið reglulega mjólk. Sem betur fer er gerillinn enn á lífi og heldur áfram að vaxa.

Ég drekk daglega kaffi sem ég geri í koparpotti (cezve) og sem betur fer áttum við smá lager af kaffibaunum heima þegar stríðið hófst, en ég vil mala kaffið sjálf.

Á morgnana vill eiginmaður minn helst borða eggjahræru og steiktar kartöflur. Hann og faðir hans buðu fram aðstoð sína í sjálfboðastarf, en það felur í sér að keyra með hálf tilbúinn mat til fatlaðra hér í borginni. Fyrir þetta fá þeir reyndar auka mat sem þeir geta tekið heim, meðal annars kjúklingaleggi, dumplinga með osti og kál.

Stórmarkaðir í borginni lokuðu í nokkra daga þegar stríðið hófst. Þegar þeir opnuðu aftur var það í skemmri tíma á hverjum degi og það ná ekki allir íbúar að kaupa það sem þeir vilja. Úrvalið hefur líka verið takmarkað. Undanfarið hafa minni verslanir opnað að nýju. Sterkt áfengi hefur ekki verið selt síðasta mánuðinn, en bjór er hins vegar á tilboði. Ég viðurkenni að eldamennskan er einskonar streitumeðferð í þessu ástandi.

Því miður hafa ekki allir íbúar möguleika á að elda heima hjá sér. Um þúsund heimili hafa verið eyðilögð hér í Karkív og margir hafast við í kjöllurum eða sprengjubirgjum. Fjölmargir sjálfboðaliðar aðstoða þá sem eru í slíkum aðstæðum með að undirbúa, elda og svo dreifa til þeirra mat.

Hjónin hafa átt nóg af gæludýramat fyrir bæði páfagaukinn og …
Hjónin hafa átt nóg af gæludýramat fyrir bæði páfagaukinn og hundinn sinn þrátt fyrir minna vöruúrval verslana upp á síðkastið.

 

Sjálfboðaliðar, meðal annars frá öðrum Evrópulöndum, hafa svo dreift öðrum nauðsynjavörum, en í dag skutu Rússar á fólk sem beið í röð eftir slíkri aðstoð í borginni Saltovka. Einhverjir létust og aðrir eru særðir.

Sem betur fer höfum við tvö ekki enn upplifað hungur eftir að stríðið hófst og við höfum átt nóg fyrir gæludýrin okkar. Dóttir okkar starfar og fær greidd laun í borginni Lvív í vesturhluta landsins og það hjálpar okkur mikið.

Sergei í Lvív

Tuttugasti og níundi dagur stríðsins. Ég náði að koma merkilega miklu í verk í dag. Fyrst þreif ég íbúðina almennilega í fyrsta skiptið í tvær vikur. Eftir það var komið að smá verkefni í tengslum við alvöru vinnuna mína. Við erum að reyna að koma starfseminni aftur af stað og ég vona að það muni ganga eftir. Þá æfði ég mig líka aðeins að spila á hljóðfæri og að lokum voru nokkur önnur verkefni sem ég þarf að klára fyrir lok vikunnar. Þannig að dagurinn leið mjög hratt.

Góðu fréttirnar frá víglínunni í morgun voru að herinn okkar náði að sökkva rússnesku skipi sem var að koma til lendingar með mannskap og herbúnað í hertekna hafnarborg. Ég vona að þetta verði Rússum lærdómur til framtíðar. Ég vona einnig að þetta verði ekki síðasta skipið sem við náum að sökkva. Sigurdagurinn nálgast hægt og rólega.

Staðan: Reyni að finna eitthvað skemmtilegt til að horfa á í sjónvarpinu núna í kvöld. Er að pæla í einhverjum áhugaverðum tónleikum sem ég hef ekki séð áður.

Jaroslav í Ódessu

Við vitum að fullt af fólki vill hjálpa Úkraínu og við vitum að allur heimurinn ætlar ekki að horfa upp á eitt land skemma allt. En við vitum líka að sannleikurinn er fyrsta fórnarlamb stríðs eins og Aeschylus sagði.

Ég las fréttir um Maríupol þar sem Rússar reyna að sannfæra fólk um að aðrar úkraínskar borgir (meðal annars mín) hafi þegar gefist upp. Það er líka ömurlegt að lesa sumar falsfréttir um landið okkar, en því miður sér maður að slíkur áróður virkar.

„Ég trúi því einlæglega að allir eigi að fá séns …
„Ég trúi því einlæglega að allir eigi að fá séns að byrja upp á nýtt með hreint borð,“ segir Jaroslav, en gamall kunningi hans var að losna úr fangelsi í Úkraínu. Ljósmynd/Jaroslav

 

Í dag hitti ég gamlan aðdáenda hljómsveitarinnar sem ég er í. Þetta var fyrsti dagurinn hans eftir að vera sleppt úr fangelsi. Hann sagði mér frá því hversu frábært það væri að geta hitt móður sína aftur og hversu furðulegt það væri að vera læstur inni, sérstaklega á tímum sem þessum.

Hann bauðst til að hjálpa okkur í sjálfboðastarfinu með nokkur verkefni og ég gat ekki hafnað því. Við tókum meðal annars saman föt fyrir börn og unglinga sem við munum koma til skila á morgun. Ég trúi því einlæglega að allir eigi að fá séns að byrja upp á nýtt með hreint borð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert