Of seint í rassinn gripið hjá ESB

Selenskí mætti á fund Evrópusambandsins í gegnum fjarfundabúnað. Hann birti …
Selenskí mætti á fund Evrópusambandsins í gegnum fjarfundabúnað. Hann birti myndskeið frá fundinum á Facebook-síðu sinni. AFP/Úkraínska forsetaembættið

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, þakkaði Evrópusambandinu fyrir þær refsiaðgerðir sem ráðist hefði verið í gegn Rússlandi vegna innrásar ríkisins í Úkraínu. Í myndskeiði á Facebook-síðu sinni sagði Selenskí þó að þær hefðu borist „svolítið seint“.

Selenskí sagði að ef refsiaðgerðirnar hefðu verið fyrirbyggjandi hefði sambandið getað afstýrt stríðinu.

„Þið komuð á refsiaðgerðum. Fyrir það erum við þakklát. Þetta eru kraftmikil skref en þau voru stigin svolítið seint. Ef þetta hefðu verið fyrirbyggjandi aðgerðir hefði Rússland ekki farið af stað í stríð,“ sagði Selenskí.

„Þið skáruð á Nord Stream 2. Við erum ykkur þakklát, réttilega. En það gerðist líka svolítið seint.“

Heilu borgirnar hafa fuðrað upp

Þá bætti Selenskí því við að rússneski herinn kunni ekki að bera virðingu fyrir Úkraínu. 

„[Hermennirnir] vita ekki hvað samviska er. Þeir skilja ekki hvers vegna við metum frelsi okkar svo mikils.“

Selensjí sagði að nú þegar hafi rússneski herinn eyðilagt 230 skóla, 155 leikskóla og drepið 128 börn í Úkraínu. 

„Heilu borgirnar og þorpin hafa fuðrað upp. Það er ekkert eftir. Rússneski herinn drap blaðamenn, þrátt fyrir að þeir hefðu á sér skýrar merkingar sem sýndu að þeir væru blaðamenn. Þeim hefur mögulega ekki verið kennt að lesa, bara að drepa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert