Úkraínskir embættismenn í hafnarborginni Maríupol segja að um 300 manns gætu hafa látist í loftárás Rússa á leikhús í síðustu viku þar sem fjöldi fólks hafði leitað skjóls.
„Miðað við frásagnir sjónarvotta hafa borist upplýsingar um að í kringum 300 manns hafi dáið í Drama-leikhúsinu í Maríupol eftir loftárásir rússneskrar flugvélar,“ sagði í tilkynningu frá Maríupol-borg á Telegram.
Serhjí Taruta, úkraínskur þingmaður, hafði áður greint frá því að einhverjum fórnarlömbum hafi tekist að koma sér út úr sprengiskýlinu í kjallara leikhússins. Lítið var þó vitað um örlög þeirra sem eftir voru.
Serhjí Orlov, aðstoðarborgarstjóri Maríupol, sagði 1.000 til 1.200 manns hafa verið í byggingunni þegar árásin var gerð.