Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, ætlar að biðja Vladimír Pútín Rússlandsforseta um að vera „arkitekt friðar“ og stöðva stríðið í Úkraínu, samkvæmt fjölmiðlum í Tyrklandi.
Erdogan sem hefur reynt árangurslaust að stilla til friðar á milli yfirvalda í Kreml og í Kænugarði, sagðist ætla að hringja í dag í Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, og í Pútín um helgina eða snemma í næstu viku.
„Við eigum að segja Pútín að vera arkitekt að fyrsta skrefinu til friðar,“ segir Erdogan og bætir við að til að leysa deilu ríkjanna þurfi Pútín að hefja viðræðurnar sómasamlega.
Tyrkir, sem eru í NATO, stunda mikil viðskipti bæði við Úkraínu og við Rússland og hafa neitað að beita viðskiptaþvingunum gegn Rússum.