Ætla að einbeita sér að Donbas-héruðunum

Frá fundi Rússa fyrir stuttu. (F.v.) Sergei Rudskoi hershöfðingi, Igor …
Frá fundi Rússa fyrir stuttu. (F.v.) Sergei Rudskoi hershöfðingi, Igor Konashenkov, talsmaður varnarmálaráðuneytisins og Mikhail Mizintsev, yfirmaður varnamálastofnunar Rússlands. AFP

Rússar segjast nú ætla að einbeita sér að „algjörri frelsun“ Donbas-héraðanna sem eru í austurhluta landsins. Þetta væri annar af tveimur möguleikum sem Rússland hefði haft til skoðunar, en hinn væri að einbeita hernaði sínum að öllu landinu. Þetta kom fram í máli Ser­gei Rudskoi, hers­höfðinga í rúss­neska hern­um, á fundi sem sýndur var á ríkissjónvarpsstöð í Rússlandi.

Þessi orð geta táknað ákveðna stefnubreytingu á áformum Rússlands, en áður hefur verið talið að markmið hernaðaraðgerða þeirra sé að ná höfuðborginni Kænugarði og ná yfirráðum yfir landinu í heild. Mótstaða Úkraínumanna hefur hins vegar verið mun sterkari en búist var við.

Sagði Rudskoi að 93% af Luhansk-héraði væri undir stjórn Rússa og 54% í Donetsk-héraði. Þá staðhæfði hann að Rússum hefði tekist að eyðileggja meirihluta úkraínska lofthersins og sjóhersins og að þar með hefði Rússum tekist að ná markmiðum sínum í fyrsta hluta innrásarinnar.

Varnarmálaráðuneytið útilokaði þó ekki frekari árásir á úkraínskar borgir og varaði við því að Rússar myndu bregðast við öllum tilraunum til að loka loftrýminu yfir Úkraínu sem ráðamenn í Úkraínu hafa ítrekað óskað eftir aðstoð NATO með að framkvæma.

Samkvæmt varnarmálaráðuneytinu munu Rússar halda áfram innrás sinni þangað til markmiðum sem Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti hafði sett, en ekki var tiltekið sérstaklega hver þau markmið væru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert