Rússar uppfæra tölur yfir fallna hermenn

Frá fundi Rússa fyrir stuttu. (F.v.) Sergei Rudskoi hershöfðingi, Igor …
Frá fundi Rússa fyrir stuttu. (F.v.) Sergei Rudskoi hershöfðingi, Igor Konashenkov, talsmaður varnarmálaráðuneytisins og Mikhail Mizintsev, yfirmaður varnamálastofnunar Rússlands. AFP/NATALIA KOLESNIKOVA

Samkvæmt tölum rússneska hersins hefur 1.351 rússneskur hermaður látið lífið í innrás Rússa inn í Úkraínu og 3.825 til viðbótar særst. Þetta er nokkuð lægri tala en bæði Úkraínumenn og bandaríska leyniþjónustan hafa gefið út. Þannig sagði leyniþjónustan fyrr í þessari viku að samkvæmt varfærnu mati hefðu meira en sjö þúsund rússneskir hermenn verið drepnir í áttökunum.

Mikhail Mizintsev, yfirmaður varnamálastofnunar Rússlands, greindi frá þessum nýju tölum á upplýsingafundi í dag, en þar var einnig Igor Konashenkov, talsmaður varnarmálaráðuneytis.

Þetta er í fyrsta skipti síðan í byrjun mánaðarins sem rússneski herinn uppfærir tölur sínar um mannfall, en þá var gefið út að 498 hermenn hefðu verið drepnir og um 1.500 væru særðir.

Samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna er staðfest að 1.081 almennur íbúi hafi verið drepinn í átökunum, en talið er að raunveruleg tala sé miklu hærri.

Mizintsev sagði á fundinum að 419.736 íbúar í Úkraínu hefðu verið fluttir á brott til Rússlands frá héruðum sem höfðu verið undir stjórn aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Þar af væru um 88 þúsund börn.

Ser­gei Rudskoi, hers­höfðingi í rúss­neska hern­um, sagði á fundinum að Rússar horfðu á það sem stór mistök Vesturvelda að senda vopn til Úkraínu og að það myndi lengja stríðið og fjölga fórnarlömbum þess. Sagði hann jafnframt að raunverulegur tilgangur með vopnasendingum væri ekki að styðja Úkraínu, heldur að draga stríðið á langinn.

Rudskoi sagði jafnframt að samkvæmt tölum Rússa hefðu um 14 þúsund úkraínskir hermenn verið drepnir og 16 þúsund særðir til viðbótar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert