Skilja eftir sig hvíta slikju á himni

Fosfórsprengjur lýsa upp himininn.
Fosfórsprengjur lýsa upp himininn.

Yfirvöld í Úkraínu hafa sakað rússneska herinn um að hafa beitt fosfórsprengjum, sem bannað er samkvæmt alþjóðalögum að nota í íbúðabyggð en eru þó leyfðar fyrir hernaðarskotmörk.

Fosfórsprengjur, sem skilja eftir sig hvíta slikju á himninum, voru notaðar í smáborg í Luhansk-héraði og í borgnni Irpín fyrir utan Kænugarð, að sögn stjórnvalda í Úkraínu.

„Rússar hafa ekki brotið nein alþjóðleg lög,“ hefur Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar, sagt um málið.

Fosfór er efni sem kviknar í þegar það kemst í samband við andrúmsloft, en er ekki skilgreint sem efnavopn auk þess sem auðvelt er að nálgast það, að því er franska sjónvarpsstöðin LCI hafði eftir Olivier Lepick rannsóknarvísindamanni hjá FRS í Frakklandi í gær.

Fosfór er notað til að búa til reykský til að hylja ferðir landgönguliða, lýsa upp vígvelli eða eyðileggja byggingar með eldi, en fosfór getur „sannarlega valdið hræðilegum skaða, sérstaklega miklum bruna, ef fólk er nálægt sprengjustað“, bætti hann við.

Ekki skilgreint sem efnavopn

Fosfór er hvarfgjarnt efni og sem slíkt fellur það ekki undir samninga um efnavopn frá 1997, en það fellur undir samninga um sértæk vopn frá 1983 sem hafa takmarkanir á notkunarmöguleikum í stríði.

Þar sem bæði Rússland og Úkraína tilheyrðu áður Sovétríkjunum eru þau talin samþykk reglunum, sem voru undirritaðar af forystumönnum Sovétríkjanna á sínum tíma.

Í reglunum kemur fram að notkun fosfórs og sambærilegra efna er bönnuð undir öllum kringumstæðum þar sem almennir borgarar eru nærri. Efnið má hins vegar nota til að mynda reykský til að hylja herlið.

Fosfórssprengjur engin nýlunda

Í fyrri heimsstyrjöldinni voru eldsprengjur í fyrsta skipti notaðar, um það leyti sem flugher fór að skipa stærra hlutverk í stríði. Í maí 1915 varpaði þýska Zeppelin-flugskipið eldsprengjum á London. Fosfórsprengjur voru mikið notaðar í seinni heimsstyrjöldinni, sérstaklega af Bandaríkjamönnum gegn Þjóðverjum.

Sprenging lýsir upp himininn á Gaza-svæðinu.
Sprenging lýsir upp himininn á Gaza-svæðinu. AFP

Napalmsprengjur í Víetnam

Napalmsprengjur voru fyrst búnar til 1942, en þær eru sprengjur úr nokkurs konar þykktu bensíni og voru notaðar af Bandaríkjamönnum í Víetnamstríðinu með hræðilegum afleiðingum fyrir almenna borgara.

Nýlenduveldið Frakkland hafði áður notað napalmsprengjur í stríði sínu í Indókína.

Írak, Palestína og Sýrland

Um aldamótin voru Bandaríkjamenn sakaðir um að hafa notað fosfórsprengjur í írösku borginni Fallujah, en þáverandi talsmaður bandaríska hersins, Peter Pace, sagði að fosfórsprengjur „væru lögmæt stríðsvopn“ þar sem þau væru ekki skilgreind sem efnavopn og væru notuð til að dyljast.

Palestínumenn sökuðu Ísraela um að nota fosfórsprengjur árið 2009 á Gaza-svæðinu. Vitni frá Sýrlandi sögðu að Rússar hefðu notað fosfórsprengjur í Ghouta-hverfinu í Damaskus, en stjórnvöld í Kreml höfnuðu þeim ásökunum.

Rússar sökuðu síðan Úkraínumenn um að hafa notað fosfórsprengjur árið 2014 gegn Rússum í Donbas-héruðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert