„Ekki spila diplómatíska leiki við fjöldamorðingja“

Garrí Kasparov hefur lengi talað gegn Pútín.
Garrí Kasparov hefur lengi talað gegn Pútín. AFP

„Enginn leiðtogi í hinum frjálsa heimi ætti að hika við að segja það hreint út að heimurinn væri mun betri staður ef Pútín væri ekki lengur við völd í Rússlandi. Góð aðferð til að koma því til leiðar er að segja einmitt það.“

Þetta segir Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák sem lengi hefur mótmælt setu landa síns, Vladimírs Pútíns, á valdastól í Kreml.

Vísar hann til orða Joe Biden Bandaríkjaforseta fyrr í kvöld, sem hann lét falla í lok ávarps við konunglega kastalann í höfuðborg Póllands:

„Í Guðs bæn­um, þessi maður get­ur ekki haldið áfram við völd,“ sagði forsetinn um Pútín.

Joe Biden flutti ræðuna í Varsjá fyrr í kvöld.
Joe Biden flutti ræðuna í Varsjá fyrr í kvöld. AFP

Ekki viljað kalla opinberlega eftir stjórnarskiptum

Ummæli forsetans, sem þóttu söguleg og bera merki um mikla stefnubreytingu, voru þó dregin til baka aðeins skömmu eftir að hann kvaddi viðstadda í Varsjá.

Emb­ætt­ismaður frá Hvíta hús­inu fullyrti að for­set­inn hefði ekki raun­veru­lega átt við það að Pútín væri ekki leng­ur vært á valda­stóli.

„Mein­ing for­set­ans var sú að Pútín get­ur ekki verið leyft að beita valdi sínu gagn­vart ná­grönn­um sín­um eða á svæðinu. Hann var ekki að tala um völd Pútíns í Rússlandi, eða stjórn­ar­skipti.“

Stjórn­völd bæði í Banda­ríkj­un­um og Bretlandi hafa lagt sig í líma við að gefa ekki í skyn að þau vilji ann­an mann í brúnni í Moskvu, jafn­vel þó Biden sjálf­ur hafi til að mynda kallað hann stríðsglæpa­mann.

„Biden er ekki Trump“

Kasparov skrifar um málið á Twitter og bendir á að Pútín hafi haldið í völd í meira en tuttugu ár vegna þess að þrátt fyrir að hann hafi leitt landið til glötunar að mörgu leyti, þá sé enn komið fram við hann eins og stóra stjórann sem geti komið hlutunum aftur á réttan kjöl.

„Einræðisherrar merja niður jafnvel minnsta merki um andstöðu, svo þeir geti sagt: „Ef ekki ég, hver þá?“ Að tuttugu árum liðnum þá virkar þetta. En við verðum öll að ímynda okkur Rússland eftir Pútín, svo það geti gerst. Engin normalísering, engir samningar, ekkert. Hann er ólögmætur og hann er stríðsglæpamaður,“ skrifar skákmeistarinn.

„Biden er ekki Trump, sem þarf þýðanda frá ensku yfir í ensku! Enginn einræðisherra er lögmætur. Ekki taka eitthvað til baka þegar þú hefur rétt fyrir þér og ert í rétti. Ekki spila diplómatíska leiki við fjöldamorðingja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert