Að minnsta kosti fimm manns eru særðir eftir óvæntar loftárásir rússneska hersins á borgina Lvív í vesturhluta Úkraínu í dag.
Árásir á borgina hafa verið sjaldgæfar enda er hún enn fjarri helstu vígstöðvum í landinu nú þegar rúmur mánuður er liðinn frá innrás Rússa.
Borgarstjórinn Andrí Sadóví segir að kviknað hafi í iðnaðarhúsnæði sem hefur að geyma eldsneyti, eftir árásirnar. Innviðir borgarinnar hafi þá skemmst töluvert.
Hvatti hann íbúa til að halda sig innandyra þar til slökkt verður á loftvarnarflautum.
Þykkan reyk mátti sjá leggja af miðborg Lvív eftir að árásirnar höfðu gengið yfir.