Það var upp úr klukkan 19 í kvöld að staðartíma sem síðasta áætlunarlestin á vegum járnbrautarfyrirtækisins Allegro renndi upp að brautarpallinum í finnsku höfuðborginni Helsinki og markaði þar með endalok lestarsamgangna milli ríkja Evrópusambandsins og Rússlands, að minnsta kosti í bili.
Allegro-lestin var að koma frá Pétursborg í Rússlandi, en það var á föstudaginn sem fyrirtækið tilkynnti að síðasta lestarferðin stæði nú fyrir dyrum. Hafa lestirnar verið troðfullar af Rússum síðan innrás þeirra í Úkraínu hófst fyrir rúmum mánuði, fólki sem hefur séð sitt óvænna og forðað sér af fósturjörðinni á meðan slíkt væri enn hægt fyrir sífellt umfangsmeiri viðskipta- og ferðabönnum vestrænna ríkja sem beint er gegn Rússlandi vegna ófriðarins.
„Nú þegar ég er búinn að ná í kettina mína hef ég enga ástæðu til að snúa til baka, nú hef ég allt sem er mér kært,“ segir Alex frá Moskvu í samtali við AFP-fréttastofuna og vill ekki láta meira uppi en fornafn sitt. Hann hefur verið búsettur í finnsku höfuðborginni um nokkurra ára skeið þar sem hann unir hag sínum vel.
„Ástandið í Rússlandi er orðið flóknara,“ segir Ivan háskólanemi sem er á leið til Portúgal með móður sinni, en þar er hann búsettur þótt hann nemi við háskóla í Moskvu. Ivan staldrar þó ekki lengi á Íberíuskaganum syðst í Evrópu, er aðeins á leið þangað í páskafrí áður en hann snýr aftur til rússnesku höfuðborgarinnar til að þreyta vorpróf sín.
„Ég veit ekkert hvernig ég kemst aftur til Moskvu, við skulum sjá hvernig málin þróast,“ segir Ivan, en þeir Alex eru meðal þúsunda sem flúið hafa Rússland síðasta mánuðinn þótt um þann flótta finnist engar opinberar tölur, að minnsta kosti ekki tölur sem rússnesk stjórnvöld hafa viljað gera lýðum ljósar.
Eftir að flugsamgöngur lögðust af milli Rússlands og ríkja Evrópusambandsins hafa þeir sem ekki hafa náð að troða sér í lestina til Finnlands, 700 manns á dag, komið sér í flug til Tyrklands og Serbíu eða ferðast með öðrum hætti.
Eina ástæða þess að lestarferðir til Finnlands stóðu þó þetta lengi var að finnsk yfirvöld beiddust þess að þeim yrði haldið áfram svo Finnar í Rússlandi ættu möguleika á að koma sér til fósturjarðarinnar.
Rússnesk yfirvöld hafa sett það skilyrði fyrir lestarferðunum til Finnlands að farþegar séu rússneskir eða finnskir ríkisborgarar með vegabréfsáritun og skjalfesta bólusetningu gegn kórónuveirunni með einhverju þeirra bóluefna sem Evrópusambandið viðurkennir.
Flestir farþegarnir með Helsinki sem áfangastað hafa því verið Rússar sem búa, starfa eða eru við nám í Evrópusambandsríkjum.