Engin merki um breytta stefnu Rússa

Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra og sérfræðingur í alþjóðamálum.
Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra og sérfræðingur í alþjóðamálum. mbl.is/Hallur Már

„Ratsjáin var vissulega angi af þessari löngu sögu,“ segir Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra og sérfræðingur í alþjóðamálum, um hádegisfyrirlestur, sem hann heldur í Þjóðminjasafni Íslands á föstudag, 1. apríl, klukkan 12 undir yfirskriftinni Ratsjáin á Straumnesfjalli var lítill angi af sögu sem er löngu lokið – og þó ekki, en fyrirlesturinn tengist ljósmyndasýningu safnsins um ratsjárstöðina á Straumnesfjalli á Hornströndum.

„Ég fer yfir geópólitískar, sögulegar og hernaðarlegar forsendur í þessu samstarfi Íslands og Bandaríkjanna, og hlutverk Íslands, hvað hefur breyst í lykilatriðum og hvað ekki,“ segir Albert í samtali við Morgunblaðið, en fælingar- og hernaðarstefna Atlantshafsbandalagsins, NATO, gagnvart Rússlandi hefur fengið aukið vægi í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Hyggst Albert fjalla um hvað hafi í lykilatriðum breyst og hvað ekki í öryggis- og varnarmálum.

„Núna skiptir þessi fælingar- og hernaðarstefna meira máli en áður, það er augljóst, þar á meðal í norðurhöfum. Stefnunni í norðurhöfum tengist Ísland auðvitað, þótt ekki sé með sama hætti og var í kalda stríðinu. Ég fer yfir þessi ólíku tímabil, það sem er að gerast núna og það sem var að gerast í kalda stríðinu, og skoða hvað er líkt þar og hvað ólíkt,“ segir Albert. Þarna séu á ferð lykilatriði, sem sjaldnast skjóti upp kollinum í íslenskri umræðu um öryggis- og varnarmál.

Vladimír Pútín á fjarfundi á föstudag.
Vladimír Pútín á fjarfundi á föstudag. AFP

Enginn arftaki Sovétsins

Kveður hann afar ólíklegt að Bandaríkjaher verði með fasta viðveru á Íslandi á nýjan leik.

„Ég legg einmitt ríka áherslu á að þessari löngu sögu, þessari 50 ára sögu samstarfs Íslands og Bandaríkjanna, lauk með falli Sovétríkjanna, sem er grundvallaratriði í þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna, það er að segja að koma í veg fyrir að eitthvert eitt ríki nái drottnandi stöðu á meginlandi Evrópu. Sú hætta hvarf með Sovétríkjunum og Rússland er ekki með neinum hætti hernaðarlegur arftaki Sovétríkjanna,“ heldur Albert áfram.

Bendir hann sem dæmi á, að norðurfloti Rússlands sé miklum mun minni en norðurfloti Sovétríkjanna var, núverandi floti sé ekki úthafsfloti heldur sé ætlað að sinna heimahöfum og nærsvæðum, enda í fullu samræmi við hernaðarlegar þarfir Rússlands nútímans, sem eigi mun langdrægari vopn en áður.

„Nú er hægt að skjóta stýriflaugum á Keflavíkurflugvöll úr þrjú til fimm þúsund kílómetra fjarlægð, án þess að koma nálægt Íslandi.“

Slök frammistaða áberandi

Inntur eftir mati á stöðu mála í Úkraínu, rúmum mánuði eftir innrás Rússa þangað, segir Albert það einna mest áberandi hve slök frammistaða rússneska hersins hafi verið fram til þessa.

„Í upphafi var ekki talað um annað en hina miklu yfirburði Rússa í öllum tölulegum samanburði, sérstaklega í lofti. Sá, sem hefur yfirburði í lofti, hefur stjórnina. Þessar fyrstu spár rættust hins vegar ekki og augljóst að eitthvað mikið er að hjá Rússum, í þjálfun, birgðaflutningum, fjarskiptum og nánast öllu. Um þetta þarf ekki að hafa neinar getgátur, þeim bara gengur illa,“ segir Albert.

Rifjar hann í því samhengi upp ummæli formanns rússneska herráðsins, sem á föstudag hafi gefið í skyn að Rússar hefðu klárað fyrsta stigið af hernaðinum og gætu þar með einbeitt sér meira að Donbass-héruðunum.

„Það er ekkert í hernaðarrekstrinum, sem bendir til þess að nokkur breyting hafi orðið á markmiðum Rússa. Markmiðið er náttúrulega Kænugarður, meginhluti rússneska hersins í Úkraínu er þar í nágrenninu.“

Pressan á Selenskí mikil

Albert kveður neikvæðu hliðina á því, að Rússum gangi illa í Úkraínu, einkum vera þá, að rússneski herinn muni í ríkari mæli beita stórskotaliði gegn borgunum, sem hafa muni í för með sér meira mannfall en ella.

„Pressan er því mikil og Selenskí hefur þegar gefið eftir, hann hefur gefið eftir aðildina að NATO og hann hefur sagst vera tilbúinn til viðræðna. Rússarnir meina hins vegar greinilega lítið með því, sem þeir hafa sagt í þá veru, og virðast telja að þeir muni styrkja samningsstöðu sína á næstu vikum með áframhaldandi hernaði,“ segir Albert.

Miðað við gengi Rússa liðinn mánuð segir hann samningsstöðu þeirra enda ekki vera þá, sem þeir í upphafi hafi vonast eftir. „Á sama tíma, eftir því sem eyðilegging og mannfall óbreyttra borgara eykst, styrkist heldur ekki samningsstaða Úkraínumanna, það er þetta tvennt, sem togast á eins og staðan er núna,“ segir Albert Jónsson að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert