Rússnesk og úkraínsk stjórnvöld munu hefja friðarviðræður í persónu að nýju í dag. Viðræðurnar munu hefjast í skugga viðvaranna um að ástandið í umsetnu hafnarborginni Maríupol sé orðið óbærilegt.
Það kvað við nýjan tón í orðræðu Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, í gær þar sem hann sagði brýnt að koma á friðarviðræðum í persónu og gaf til kynna að hann væri tilbúinn að ræða kröfur Rússa um ævarandi hlutleysi Úkraínu.
Samningateymi beggja hliða hafa ekki hist í persónu svo vikum skiptir en í dag mun þriggja daga samningalota hefjast að nýju í Istanbúl í Tyrklandi samkvæmt David Arakhamia fulltrúa Selenskís í friðarviðræðum.
Allar fyrri tilraunir til friðarviðræðna hafa runnið út í sandinn og hefur stríð Rússa og Úkraínumanna núna staðið í 33 daga.
Um tuttugu þúsund manns hafa fallið í stríðinu samkvæmt upplýsingum frá úkraínskum stjórnvöldum, tíu milljónir hafa flúið heimili sín og þrátt fyrir hrakföll rússneska hersins rignir sprengjum enn yfir fjölda borga í Úkraínu.