Kanada kaupir 88 F-35 orrustuþotur

Ganga á frá kaupunum á næstu sjö mánuðum.
Ganga á frá kaupunum á næstu sjö mánuðum. AFP

Kanada hyggst kaupa 88 F-35 orrustuþotur, framleiddar í Bandaríkjunum, til að endurnýja flugflota landsins. Áætlað er að vélarnar verði afhentar árið 2025.

F-35 „hefur reynst þroskuð, fær og samhæfð orrustuþota og þess vegna erum við að fara yfir í lokastig þessara innkaupa,“ sagði Anita Anand varnarmálaráðherra á sameiginlegum blaðamannafundi með innkauparáðherranum Filomena Tassi.

„Kanada er með eitt mesta loftrými í heimi og við verðum að ganga úr skugga um að næsti orrustuflugfloti okkar sé sveigjanlegur, lipur og geti mætt ógnum af ýmsum toga,“ sagði hún.

Lockheed Martin toppbjóðandinn

Hæstbjóðandinn Lockheed Martin sló út vélarnar Gripen frá Saab, eftir að Superhornet frá Boeing var útilokað frá keppninni, og samsteypa undir forystu Airbus og Dassault Aviation dró Typhoon og Rafale orrustuþotur sínar úr leik.

Kanada hafði tekið frá 19 milljarða kanadískra dala, eða tæpar tvær billjónir íslenskra króna, fyrir kaupin.

Að sögn Tassi munu nú samningaviðræður við Lockheed Martin halda áfram en ætlunin er að gengið sé frá samningnum innan næstu sjö mánaða. Hún sagðist búast við afhendingu vélanna árið 2025.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP

Trudeau rifti fyrri samningi

Kanada eyddi tveimur áratugum í að þróa orrustuþoturnar með Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra, en Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada, rifti fyrri samningi um kaup á F-35 orrustuþotum þegar hann komst til valda árið 2015 og sagði þær of dýrar.

Fjárfestingin í hernum, verður samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í dag, sú mikilvægasta í meira en 30 ár.

Meginhlutverk nýju orrustuflugflotans verður að vakta lofthelgina í Norður-Ameríku með bandaríska flughernum undir NORAD-loftvarnakerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert