Telur beinar viðræður ekki vænlegar

Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands. AFP/Kirill Kudryavtsev

Sergei Lavrov rússneski utanríkisráðherrann telur beinar viðræður milli Volodimírs Selenskís forseta Úkraínu og Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta geta verið skref aftur á bak í friðarviðræðunum.

„[Pútín] hefur sagt að hann hafi aldrei neitað því að hitta Selenskí forseta. Það eina sem hann telur vera grundvallaratriði er að þessir fundir verði vel undirbúnir,“ sagði Lavrov við blaðamenn í dag. 

Lavrov segir krísuna sem nú er uppi hafa átt sér langan aðdraganda og að gríðarlegur fjöldi vandamála sé búinn að byggjast upp.

„Þar af leiðandi, að hittast bara og skiptast á skoðunum um hvað þér finnst og hvað þú ert að hugsa, það myndi bara hafa neikvæð áhrif núna.“

Hafa hist einu sinni

Selenskí hefur opinberlega kallað eftir fundi undir fjögur augu með rússneska starfsbróður sínum. Hann og Pútín hafa einungis hist einu sinni þegar þeir ræddust við í París árið 2019.

Friðarviðræður milli ríkjanna tveggja eru nú aftur á dagskrá og munu sendinefndir þeirra hittast næst í borginni Istanbúl í Tyrklandi.

Að sögn Lavrovs munu Rússar áfram halda fast í kröfur sínar um að Úkraínumenn leggi niður vopn og að nasismi verði upprættur (e. denazification) í Úkraínu. Rússnesk stjórnvöld hafa haldið því fram að það sé verulegt vandamál þar.

„Við höfum hagsmuna að gæta að þessum viðræðum ljúki með niðurstöðum sem uppfylla grundvallarmarkmið beggja ríkja,“ sagði utanríkisráðherrann.

Vill binda enda á nasíska hugmyndafræði

Hann sagði aðalmarkmiðið vera að binda enda á morðin í Donbas-héraðinu sem hann segir hafa átt sér stað yfir síðustu átta ár.

Hann sagði Úkraínumenn verða að binda enda á hervæðinguna og sakaði hann þá um að reyna að beita árásarvopnum til að ógna Rússlandi.

Þá kallaði hann eftir því að Úkraínumenn myndu hætta að ýta undir nasíska hugmyndafræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert