Telur beinar viðræður ekki vænlegar

Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands. AFP/Kirill Kudryavtsev

Ser­gei Lavr­ov rúss­neski ut­an­rík­is­ráðherr­ann tel­ur bein­ar viðræður milli Volodimírs Selenskís for­seta Úkraínu og Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta geta verið skref aft­ur á bak í friðarviðræðunum.

„[Pútín] hef­ur sagt að hann hafi aldrei neitað því að hitta Selenskí for­seta. Það eina sem hann tel­ur vera grund­vall­ar­atriði er að þess­ir fund­ir verði vel und­ir­bún­ir,“ sagði Lavr­ov við blaðamenn í dag. 

Lavr­ov seg­ir krís­una sem nú er uppi hafa átt sér lang­an aðdrag­anda og að gríðarleg­ur fjöldi vanda­mála sé bú­inn að byggj­ast upp.

„Þar af leiðandi, að hitt­ast bara og skipt­ast á skoðunum um hvað þér finnst og hvað þú ert að hugsa, það myndi bara hafa nei­kvæð áhrif núna.“

Hafa hist einu sinni

Selenskí hef­ur op­in­ber­lega kallað eft­ir fundi und­ir fjög­ur augu með rúss­neska starfs­bróður sín­um. Hann og Pútín hafa ein­ung­is hist einu sinni þegar þeir rædd­ust við í Par­ís árið 2019.

Friðarviðræður milli ríkj­anna tveggja eru nú aft­ur á dag­skrá og munu sendi­nefnd­ir þeirra hitt­ast næst í borg­inni Ist­an­búl í Tyrklandi.

Að sögn Lavr­ovs munu Rúss­ar áfram halda fast í kröf­ur sín­ar um að Úkraínu­menn leggi niður vopn og að nasismi verði upp­rætt­ur (e. denazificati­on) í Úkraínu. Rúss­nesk stjórn­völd hafa haldið því fram að það sé veru­legt vanda­mál þar.

„Við höf­um hags­muna að gæta að þess­um viðræðum ljúki með niður­stöðum sem upp­fylla grund­vall­ar­mark­mið beggja ríkja,“ sagði ut­an­rík­is­ráðherr­ann.

Vill binda enda á nasíska hug­mynda­fræði

Hann sagði aðal­mark­miðið vera að binda enda á morðin í Don­bas-héraðinu sem hann seg­ir hafa átt sér stað yfir síðustu átta ár.

Hann sagði Úkraínu­menn verða að binda enda á her­væðing­una og sakaði hann þá um að reyna að beita árás­ar­vopn­um til að ógna Rússlandi.

Þá kallaði hann eft­ir því að Úkraínu­menn myndu hætta að ýta und­ir nasíska hug­mynda­fræði.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert